28.10.2009 | 14:03
Heilagir pestargemlingar
Síldarbátur "fann" mikla síld í Breiðafirði við Stykkishólm, en þangað hefur hún safnast til vetursetu síðustu ár. Hafró sendi rannsóknarskipið Dröfn á staðinn til að kanna málið.
Ekki verður leyft að veiða fyrr en gengið hefur verið úr skugga um hve stór hluti stofnsins sé sýktur. Hugmyndafræði Hafró hefur byggst á að ekki skuli veitt úr stofninum sé hann mikið sýktur, væntanlega vegna þess að sýkingin drepi stofninn svo hann verði það lítill að hann þoli ekki veiði (?).
Nú hefur verið greint frá því að um 30% stofnsins hafi drepist vegna sýkingar. Talið er að 30% hrygningarstofnsins sé sýktur en hann er talinn vera 340 þús. tonn. Hafró "vill" að hann sé 300 þús tonn til að tryggja viðhald hans og því ákvarðist veiðar á því hvort pestin drepi hann niður fyrir þau mörk: Eru menn ekki alveg með "fulle fem"? Jakob Jakobsson síldarsérfræðingur hélt því fram við mig á sjöunda áratugnum að ekki skipti máli hve hrygningarstofn síldar væri stór. Hún hrygndi á botninn, hverju laginu ofan á annað og það væri aðeins efsta lagið sem lifði. Ekki veit ég til þess að þetta hefði verið hrakið. En þá vorum við að leita að síld og vildum veiða sem mest, en það er önnur saga.
Á að láta pestina grassera til að eyðileggja síldarstofninn? Er ekki nær að nýta þá dauðadæmdu? Þarf ekki að slátra pestargemlingunum til að koma í veg fyrir frekara smit?
Mæðiveikirollum var slátrað, riðuveikifé er umsvifalaust lógað, allt til að koma í veg fyrir frekara smit. Vitað er að aukinn þéttleiki eykur líkur á smiti og því ættu viðbrögðin að vera þau að minnka stofninn, og nýta það sem annars fellur af sjúkdómi. En Hafró er trú reiknilíkunum og hugsar ekki eina hugsun til enda.
Skv. nýjustu fréttum er sýkingarhlutfallið enn 30%. Smitið er sem sé enn að breiðast út. Lítum aðeins nánar á pestina og skoðum handbók fiskeldismanna:
Sýkillinn, Ichthyophonus hoferi, er fyrst og fremst í fiskum í sjó og eru flestar tegundir þeirra næmar, einkum síld. Ef eldisfiskar eru fóðraðir á hráfiski úr sjó er hætta á að smitið berist í ferskvatnsfiska.
Einkenni: Gulir, ljósir bólgublettir sjást í innri líffærum og vöðvum. Súr lykt af holdi. Einkennum getur svipað til þeirra sem orsakast af Renibacterium salmoninarum, Mycobacterium- og Exophiala tegundum.
Meðferð: Engin.
Forvarnir: ''Hvíla'' eldisker. Gæta skal þess að ala eldisfiska ekki á hráum sjávarfiski.
Þar höfum við það. Líkindi eru á að fiskar sem éta sýkta síld smitist og deyi. Þar má telja þorsk og lax. Laxamenn hafa velt því fyrir sér hvort skýra mætti óvenju mikinn dauða laxa í sjó með því að þeir hafi smitast við að éta rauðátu sem ber smitið, eða síld sem hefur étið sýkta rauðátu (sjá nánar hér).
Allt ber að sama brunni: Það er klárlega rangt að friða pestarfé.
Hvenær verða Hafrómenn teknir til bæna? Hvenær verða þeir settir í steininn?
Mynd af sýktum laxi
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:29 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Jón.
Nei í steininn verða þeir ekki settir, ekki einu sinni ef þeim tekst svo vel að friða sýkta síldina að þeim takist að koma sýkingunni í þorskinn líka.
Það verður áfram reynt að lyfta þeim hærra og hærra á stall hér eftir sem hingað til. Hér er stutt brot úr ræðu sjávarútvegsráðherra á nýafstöðnum aðalfundi LS.
Ég var ekki sá eini sem svelgdist á kaffinu við að heyra þetta og átti ég þó á ýmsu von frá Jóni Bjarna.
Kveðja, Jón Gunnar.
L.i.ú., 28.10.2009 kl. 17:37
Nú trúi ég því að hægt sé að dæma stjórnsýslu fyrir gáleysiglæpi. Hvenær verður Hafró kærð fyrir stjórnsýsluafglöp? Örugglega aldrei því enginn dómstóll finnst í heiminum sem ekki fengi meðdómendur til að samþykkja hverja djöfuls vitleysu sem vera skal þegar kemur að einhverju sem flokkast undir stofnvernd. Friðun sýktra stofna er náttúrlega ávísun á meira stórslys, það gefur auga leið.
Árni Gunnarsson, 29.10.2009 kl. 13:27
Af öllu vitlausu sem komið hefur frá þessari stofnun er það að vernda smitbera senilega vitlausast. Ofurtrú á reiknilíkönunum kristallast vel í þessu. Það er ekkert til hjá Hafró sem heitir heilbrigð skynsemi eða að lesa í náttúruna og vinna í sátt við hana.
Haraldur Bjarnason, 1.11.2009 kl. 12:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.