15.12.2008 | 11:09
Gömul ofveiði!
Fiskverð fer nú lækkandi í heiminum vegna heimskreppunnar, í Bretlandi þegar um 20%. Það mun líklega falla áfram og setja okkur í mikinn vanda. Góð veiði hefur verið í Færeyjum en um daginn voru 200 tonn af góðum þorski og ýsu óseld á gólfinu á fiskmarkaðinum á Tóftum- http://nordlysid.fo/main.cfm?article=12556 - Ástæðan er sögð að kaupendur treysta sér ekki til að kaupa vegna minnkandi kaupmáttar í viðskiptalöndunum.
Afli íslendinga féll í kreppunni upp úr 1930, ekki vegna ofveiði eins og sumir hafa haldið fram, til að renna stoðum undir að þorskurinn hafi fengið svo mikinn frið í stríðinu, heldur vegna þess að ekki var hægt að selja fiskinn, fyrst og fremst saltfisk, það voru engir kaupendur sem gátu borgað. Erum við að stefna í það sama nú?
Nú þurfum við nauðsynlega að auka veiðar þrátt fyrir, - eða vegna, fallandi verðs. Nauðsynlegt er að draga alla sótrafta á sjó til að afla okkur gjaldeyris, m.ö.o. gefa veiðar landróðraflotans frjálsar. En gamla klíkan heldur dauðahaldi í kvótakerfið, vill reyndar hækka aflamarkið, - handa sér.
En meðan Hafró segir að ekki megi auka þorskveiðar vegna (meintrar) ofveiðihættu eru fiskveiði- og kvótamál frosin föst.
1981 var þorskaflinn 468 þús tonn en féll í 300 þús tonn 1983. Þá var kvótakerfið sett á vegna "ofveiði" og afli takmarkaður til að byggja upp stofninn svo veiða mætti meira seinna. Það geriðst ekki, niðurskurður varð allt til 1995 en þá fylltist Hafró bjartsýni, þarna væri árangurinn að skila sér og þeir hækkuðu veiðitillögurnar! - Það hefðu þeir ekki gert ef þeir hefðu haldið að stofninn væri þá ofveiddur.
Aflatillögur hækkuðu áfram og aflinn jókst til 1999. Þá hrundi allt og ofveiði var kennt um - þrátt fyrir að farið hefði verið nákvæmlega eftir ráðgjöfinni. "Gömul" ofveiði og fyrra ofmat voru sökudólgarnir. En spyrja má - hvers vegna var lagt til að auka veiðar 1995 og síðar, ef um ofveiði hafði verið að ræða í áratugi, eins og síðar var sagt?
Stofninn þoldi miklu veiðina í gamla daga, ekki var ofveiði þá og því ÖRUGLEGA ekki núna þegar veiddur er aðeins þriðjungur aflans sem tekinn var áður fyrr, - þegar enginn var ofveiðin? Margir óháðir sérfræðingar - sem þora að tala án þess að stofna atvinnu sinni í hættu, eru á því að stofninn sé vanveiddur og þeir hafa rökstutt það faglega í mörg ár án þess að stjórnvöld hafi athugað málið og fremur kosið að trúa blint á Hafró. Er ekki góð hugmynd að setja á fót "nefnd" sem rannsakar þessar gagnstæðu fullyrðingar háðra og óháðra fiskfræðinga?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.