Til Hamingju Hafró! - Grein eftir Sveinbjörn Jónsson

Ég tel ástæðu til að endurbirta hér grein eftir Sveinbjörn Jónsson trillukarl en hún birtist í síðasta tbl. Brimfaxa, málgagni smábátaeigenda. Alvöru greinar um mistökin í stjórnun fiskveiða eru orðnar sjaldgæfar og ég þakka Sveinbirni fyrir þessa grein. Hann mætti gjarnan skrifa fleiri, ekki veitir af. 

Til Hamingju Hafró!

Er ekki dásamlegt að eiga svona stóran þorskstofn í hafinu. Tilfinningin hlýtur að vera stórkostleg að hafa fengið að ala upp miklu stærri þorskstofn en við áttum, til að geta veitt miklu stærri þorska með miklu minni fyrirhöfn.

Að vísu vex aflinn lítið í samanburði við stofninn en eru það ekki bara góð búhyggindi að eiga nóg af fiski í hafinu? Hvernig lítur annars fóðurhliðin á dæminu út? Hve mikið fóður skyldi liggja að baki hverju tonni af afla af 7-10 ára fiski samanborið við 4-7 ára fisk? Dæmið er að vísu svolítið loðið vegna margbreytilegrar aldurs/afla dreyfingar en það ætti ekki að standa í sérfræðingum Hafrannsóknarstofnunar að velja sér tvö ár til samanburðar.

Mín skoðun er sú að flutningur sóknar upp eftir stofni hafi kostað lífríkið að minnsta kosti þreföldun af fóðri vegna þeirra einstaklinga sem eru í samanburðinum.

En það þarf líka að fóðra stofninn allan og til þess að geta framkvæmt breytinguna þurfti að lágmarki að tvöfalda stofnstærðina. Þetta þýðir að fóðurdæmi aflans er þegar orðið sexföldun. Og auðvitað vex samkeppnin við stærri stofn og stöðugt meiri orka fer í lífsbaráttu í stað vaxtar. Ég vil því álykta að Hafrannsóknarstofnun hafi tekist að tífalda fóðurþörf afla íslenska þorskstofnsins og tel því við hæfi að óska þeim til hamingju með árangurinn.

Þar sem margir íslendingar hafa betri innsýn í búskap en lífríki hafsins vil ég leyfa mér að gera tilraun til að færa afrekið milli greina svo menn átti sig á stærð þess.

Segjum að Rannsóknarstofnun landbúnaðarins fengi Alþingi til að setja í lög að ekki mætti slátra sauðfé yngra en 5 ára og reynum svo að gera okkur grein fyrir hvað það mundi kosta af fóðri að viðhalda sömu kjötframleiðslu og núverandi sumarlambaslátrun leiðir af sér. Húsakostur og grasrækt þyrfti að margfaldast á nokkrum árum en það mundi ekki duga til þannig að Eimskip og Samskip þyrftu að fylla öll sín skip og skemmur af innfluttu heyi ef viðhalda ætti sömu kjötframleiðslunni. Það er ekki sérfræðingum landbúnaðarins að kenna að ég treysti mér ekki til að óska þeim til hamingju eins og Hafró. Þeir fá aldrei að gera slíka tilraun og jafnvel þó þeir reyndu er víst að hún mundi mistakast.

Afrek Hafrannsóknarstofnunar verður enn stórkostlegra þegar tekið er tillit til þeirra umhverfisaðstæðna sem það er unnið við. Fyrir tæpum áratug hrundi íslenska hagkerfið með skelfilegum afleiðingum fyrir suma. Um svipað leyti hafði Hafró tekist að þegja af sér alla gagnrýni og með stuðningi erlendra vísindamanna, sem líka eiga sama heiður skilinn, tekist að fá stjórnvöld til að samþykkja lækkun aflareglunnar í 20%.

Stjórnvöld sem fljótlega stóðu frammi fyrir uppsögnum starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og niðurskurði flestra velferðarmála samþykktu að takmarka árlegan afla úr þorskstofni við 20% af stofnstærð til að þóknast snillingunum og hjálpa þeim að flytja sóknina ofar í þorskstofninn. Þeir sem þekkja veiðisögu íslenska þorskstofnsins vita að hann bar langtímum saman 30-40% sókn og svaraði henni oft með mjög hárri nýliðun.

Ég vil leyfa mér að álykta að 100 þúsund tonna árlegur viðbótarafli undanfarin 10 ár hefði eingöngu virkað sem heilbrigð grisjun og haft sáralítil áhrif á núverandi stofnstærð. Ljóst er að þau milljón tonn af þorski sem þannig hefði mátt bæta við aflann mun aldrei verða til vegna þess að þau voru ekki veidd. Veiðar búa til fisk á sama hátt og skógarhögg býr til timbur. Í tilfelli fiskanna getur bíómassi afla orðið margföld stofnstærð á nokkrum áratugum. Ég tel því enn ríkari ástæðu til að óska Hafrannsóknarstofnun til hamingju með árangurinn síðastliðna þrjá áratugina þar sem aflaskerðingar þeirra á tímabilinu eru líklega orðnar stærri en þorskstofninn getur nokkurn tíma orðið. TIL HAMINGJU HAFRÓ!

Sveinbjörn Jónsson
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband