Er Hafró að toga þorskvísitöluna upp?

Steingrímur sjávarútvegsráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið 18. apríl, þar sem hann ánægjast yfir því að þorskafli verði aukinn, vísitala þorsks hefði hækkað og ekki verið hærri í 27 ár. Aukinn afli myndi hafa jákvæð áhrif. Nú verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að hér hefur verið mjög mikið af þorski undanfarin ár, en af einhverjum varúðarsjónarmiðum hefur Hafró ekki fundist hann vera nógu stór og ekki viljað veiða meira en 20% af stofninum, eins og þeir mæla hann. Ekki þarf að fjölyrða um það en flestir sem til þekkja telja að þeirra mælingar séu út í loftið og gefi kolranga mynd af fiskgegndinni. Það skal ekki rætt hér en ég beina athyglinni að þeim hluta í grein Steinda þar sem hann ræðir um stækkun stofnsins.

Hann klippir inn í grein sína kafla úr fréttatilkynningu Hafró, en sleppir mjög mikilvægu atriði. Hér að neðan fer það sem Grímur, eins og Össur kallaði hann einu sinni, skrifaði í greininni, en það sem hann sleppti úr tilkynningunni er letrað af mér með svörtu. Grímur skrifaði:

Stofnvísitala þorsks hækkar
Samkvæmt upplýsingum Hafró hefur stofnvísitala þorsks hækkað fimmta árið í röð og þar með ekki verið hærri frá 1985. Hækkun vísitölunnar undanfarin ár má einkum rekja til þess að æ meira hefur fengist af stórum þorski og hélst sú þróun áfram í ár. 

Einnig fékkst mikið af þorski á bilinu 35-60 cm, en mæliskekkja í þeim stærðarflokki er mjög há þar sem verulegur hluti fékkst í einu tveggja mílna togi fyrir austan land sem gaf rúm 20 tonn. Dreifing stærri þorsks (80-110 cm) var hinsvegar mjög jöfn og mæliskekkja þar af leiðandi lág.

Fyrsta mat á 2011 árgangi þorsks bendir til að hann sé á meðal stærstu árganga frá 1985. Hann kemur í kjölfar lítils árgangs frá 2010, en árgangarnir frá 2008 og 2009 hafa mælst yfir meðallagi. Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur farið hækkandi undanfarin ár og er nú um og yfir meðaltali hjá flestum aldurshópum. Gott holdafar þorsksins undanfarin ár er í samræmi við það að meira hefur fengist af loðnu í þorskmögum og var loðna langmikilvægasta bráð þorsksins eins og títt er á þessum árstíma.

 

Lýkur þar með tilvísunar hans í frétt Hafró, en það sem hann sleppti úr þeirra skýrslu er feitletrað hér að ofan. Ekki verður frekan vitnað í hans grein en að hann heldur áfram og talar um:

Langtímasýn og ábyrgðar veiðar, sem er hefðbundinn áróður um hve veiðunum hafi verði vel stjórnað og að allt sé á beinu brautinni, bla. bla. bla...

Rall 2012

 

Hér er línurit sem sýnir vísitöluna. Skekkjumörkin eru sýnd með gráa svæðinu. Þar sést að neðri mörkin liggja í kring um 480 þús. tonn, en vísitalan er sögð 610 þús tonn. Þarna munar miklu. 

(Smellið á myndina til að stækka hana) 


 

Það hentaði ekki Steingrími að minnast á að, "verulegur hluti fékkst í einu tveggja mílna togi fyrir austan land sem gaf rúm 20 tonn", og því sleppti hann setningunni. 

Í þessari setningu segir Hafró beinlínis að aflinn af einni stöð, af um 600, hafi ráðið niðurstöðum mælinga þorskstofnsins! Tuttugu tonna hal vegur þungt, en ég held að heildarafli þorsks í ralli sé af stærðargráðunni 50 tonn. Hafró notar þennan afla í mælinguna þótt svona afli sé út úr korti og eigi því ekki að reiknast með í útreikningum. Heiðarlegra hefði verið að sleppa þessu risahali eða a.m.k. gefa upp vísitöluna með og án þessarar stöðvar. En það er ekki gert og þess vegna segi ég að Hafró sé að toga vísitöluna upp til að blekkja fólk, og fá það til að halda að ráðgjöfin þeirra hafi skilað svona miklum árangri.

RallskekkjaMyndin sýnir lengdardreifingu úr stofnmælingunni, 20 tonna halið innifalið, og ég teiknað hring um fiskinn úr því hali, 35-60 cm að lengd. Svarta línan er 2012 en sú rauða sýnir mælinguna 2011. (Smella til að stækka)   

Sjá má að aukningin frá í fyrra er meira en 100%, hún er þreföld. Þetta getur ekki staðist og bendur til þess að önnur hvor eða báðar mælingarnar séu vitlausar. 

Hvernig getur fjöldi 50 cm fiska þrefaldast milli ára þegar hann vex 5-10 cm á ári? Ekki nema honum hafi rignt niður. Þetta er hrein della en verst er að Hafró er að reyna að fegra mælinguna, toga þorskstofninn upp.

En, - ég get lofað því að þeir fá þetta í hausinn seinna. - Hefur einhver einhvern tíma heyrt talað um ofmat?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Mikið væri tilveran öðruvísi, ef menn eins og þú Jón réðu ferð. Við verðum að vona að ekki sé langt að bíða.

Björn Emilsson, 21.4.2012 kl. 00:03

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Þetta er eftir öðru og var fyrirséð. Við vitum það vel að það er fyrir löngu ákveðið af fjórflokknum og LÍÚ að aldrei verði veitt meira en 200 þúsund tonn af þorski.

Níels A. Ársælsson., 21.4.2012 kl. 08:12

3 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Hugsa sér að svona erum við búnin að tapa milljörðum á svona fáránlegum vinnubrögðum. Þetta hugnast núverandi útgerðamönnum og bankastjórum og þá má þjóðin svelta og alvöru sjómenn mæla göturnar í stað þess að bera björg í þjóðarbú.

Útgerðamenn vita manna best að fljótandi "elliheimili" eru ekki til stórræðanna". ))

Ólafur Örn Jónsson, 21.4.2012 kl. 10:40

4 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það hentar stjórnvöldum að setja þorskstofninn yfir þau mörk að hann þoli 202 þúsund tonna úthlutun, einfaldlega til þess að koma fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu á koppinn.

Svo einfallt er það.

Sindri Karl Sigurðsson, 21.4.2012 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband