10.2.2012 | 18:17
Ný þekking á atferli fiska; - Södd sandsíli synda lengur
Södd sandsíli synda lengur
Danskar rannsóknir á atferli sandsíla sýna að sandsílum með fullan í maga er hættara við að lenda í trolli vegna þess að þegar þau eru södd synda þau meira upp í sjó og eru þar óvarin fyrir trollveiðum.
Þegar sandsílin eru búin að éta svifkrabba leysast torfurnar upp og leita til botns þar sem þau grafa sig niður og bíða þar til næsta dags. Í sandinum eru þau óhult fyrir óvinum. Í köldustu mánuðum ársins eru flest sandsíli niðurgrafin í sandinn allan sólarhringinn.
Að sílin skuli grafa sig niður gerir allar stofnmælingar erfiðar en Danir veiða mikið af sandsíli til bræðslu, nokkur hundruð þúsund tonn á ári, og þá tilheyrir víst að mæla þurfi stofninn svo unnt sé að gefa út kvóta.
Stofnmælingar vafasamar
Stofnmælingar, sem Danska Hafró framkvæmir, byggjast á því hve mikið flotinn veiðir á degi hverjum, auk eigin rallveiða þar sem togað er með sandsílatrolli.
Vandinn er að veiðin er mjög breytileg vegna þess að einungis er unnt að veiða þau síli sem ekki eru niðurgrafin í sandinn. En ekki er vitað hve mikill hluti þeirra er uppi í sjó og veiðanleg.
Það er Mikael van Deurs frá DTU Aqua í Danmörku, sem ásamt sínum samstarfsmönnum hefur verið að rannsaka hvaða þættir ráða því hve langan tíma sílin eru uppi í sjó og þar með veiðanleg.
Rannsóknirnar sýna að því meira sem sílin hafa að éta, þeim mun lengri tími líður þar til þau grafa sig aftur niður í sandinn í skjól fyrir veiðum og óvinum. Tíminn, sem þau eyða uppi í sjó ákvarðast einnig af því hversu mikinn mat þau hafa fengið síðustu daga. Hafi verið lítið hefur um mat eru sílin í sandinum allan daginn.
Fela sig fyrir óvinum, fugli og fiski
Talið er að þetta sé aðlögun til að koma í veg fyrir að verða étin meðan þau bíða betri tíma. Tilraunir í rannsóknakerjum sýna að eftir að hafa legið hreyfingarlaus niðri í sandinum í lengri tíma fóru litlar sílistorfur að koma upp úr sandinum. Þau voru gá að því hvort meiri matur hefði borist inn á svæðið.
Sandsílin virðast ekki taka mið af hitabreytingum eða hversu mikið af mat sé til staðar. Atferli þeirra virðast ákvarðast af því hve mikið þau hafa étið sama dag, hversu södd þau eru. Því saddari sem þau eru þeim mun meira eru þau á ferðinni, og er því mun hættara að lenda í kjafti óvina.
Hver er staða rannsókna hér heima?
Þessar dönsku rannsóknir vekja upp þá spurningu hvort rannsóknarmenn hér heima, sem eru að athuga "hvað hafi komið fyrir sandsílið", hafi gert sér grein fyrir því hve mikil áhrif fæðan hefur á atferli þeirra.
Hefur vöxtur sandsíla verið rannsakaður, eða fæðuframboð þeirra? Hefur beitarálag á fæðu sandsíla, dýrasvif og fleiri uppsjávar lífverur, verið rannsakað? Ekki er mér kunnugt um það, einu upplýsingar sem berast eru úr sérstöku sandsílaralli Hafró þar sem reynt er að meta fjölda sandsíla.
Í ljósi dönsku rannsóknanna, er þá ekki þörf að gera betur?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:34 | Facebook
Athugasemdir
Þá vitum við það, södd sandsíli, synda lengur!!!!!!
Guðmundur Júlíusson, 11.2.2012 kl. 01:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.