Nokkuð hefur verið fjallað um svartfugl að undanförnu vegna tillagna starfshóps umhverfisráðherra, sem lagði til að fimm tegundir svartfugla skyldu alfriðaðar í 5 ár til þess að byggja upp stofninn. Þessir stofnar eru sagður á undanhaldi vegna fæðuskorts.
Bændablaðið, 1. tbl. 19. janúar, gerði málinu góð skil og hafði m.a. viðtal við bloggskrifara. Fleiri greinar eru um þessar friðunaráætlanir en blaðið er að finna hér. (Sjá leiðara bls. 6, viðtöl og greinar bls.18 og 19, lesendabréf bls. 32 og 33).
Viðtalið:
Jón Kristjánsson fiskifræðingur er síður en svo sammála þeim friðunaráformum á fimm tegundum sjófugla af svartfuglaætt sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur boðað í samræmi við niðurstöður starfshóps sem hún skipaði í september. Telur hann það andstætt öllum lögmálum náttúrunnar að ætla sér að byggja upp sveltandi stofn með friðun.
Barnalegar ályktanir
Gagnrýnir Jón ýmislegt í skýrslu starfshóps umhverfisráðherra um verndun og endurreisn svartfuglastofna. Þar spyr hann m.a. um áreiðanleika fuglatalninga í björgum og órökstuddar fullyrðingar um stofnana. Þá komi ýmislegt fram í skýrslunni sem hreki fyrri fullyrðingar og hljóti að varpa efasemdum um þann grunn sem byggt er á. Meirihluti starfshópsins dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir án þess að rökstyðja það frekar. Bendir Jón á að í sömu skýrslu komi fram að veiðarnar nemi aðeins um 1,7% af stofnunum. Barnaskapur sé að halda að stöðvun svo lítilla veiða hafi nokkur áhrif á stofnbreytingu sem að auki eru raktar til of lítils fæðuframboðs.
Jón gagnrýndi einnig þessar friðunaráætlanir á bloggsíðu sinni og sagði þar m.a:
Það á ekki af okkur að ganga Íslendingum. Búið er að skammta þorskafla í tæp 30 ár til í von um það að stofninn stækki. Árangurinn er minni en enginn, minnkandi stofn og horaður fiskur. Nú á að beita sömu aðferð á sveltandi fugla.
Í berhögg við vistfræðiþekkingu og reynslu
Starfshópurinn telur helstu orsakir hnignunar stofnanna vera fæðuskort en telur að tímabundið bann við veiðum og nýtingu muni flýta fyrir endurreisn þeirra.
Þessar tillögur ganga í berhögg við alla núverandi þekkingu og reynslu í vistfræði og almennum búskap. Það er líffræðilega rangt að friða dýrastofn sem er í svelti. Það gerir illt verra. Ef búfénaður og önnur dýr svelta er einungis hægt að laga ástand þeirra á tvennan hátt. Annað hvort með því að auka fóðurgjöf eða fækka á fóðrum.
Vitlausasta sem hægt er að gera er að friða sveltandi dýrastofn, fugl eða fisk, í þeirri von að þeir braggist.
Reynslan ólygnust
Í samtali við Bændablaðið bendir Jón á að í Drangey einni hafi menn á síðustu öld veitt um mjög langt árabil um 100 til 200 þúsund geldfugla á hverju vori. Þessu lýsir Björn heitinn í Bæ í Skagafirði ágætlega í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 7. apríl 1972 þar sem hann gagnrýnir bann við flekaveiðum á fugli við Drangey og Grímsey. Segir hann að ekki hafi séð högg á vatni þrátt fyrir þessa veiði.
Jón segist hafa þekkt vel til Björns og þegar veiðin lagðist af í Drangey hafi fugli farið að fækka í eyjunni. Svipuðum reynslusögum hafa menn einnig lýst af nýtingu á fugli í björgum víðar á landinu.
Gengur ekki að friða sveltandi stofn
Þarna er verið að tala um að friða sveltandi fugl þar sem veiðiálagið er ekki nema kannski um 1%. Bjargfuglar, álka, langvía og stuttnefja eru taldir vera tæpar 3 milljónir einstaklinga og lundinn um 5 milljónir til viðbótar. Það er því alls ekki verið að drepa síðasta lundann. Allstaðar þar sem hætt hefur verið að nytja varp, fuglabjörg, rjúpu eða annað, þá hefur framleiðslan dottið niður og fugli fækkað. Það gengur ekki að friða sveltandi dýrastofna.
Kerfið reynir að viðhalda sjálfu sér
Segir Jón að sama eigi við um fiskstofnana og fuglastofna eins og reynslan hafi sannað um allan heim. Hann segir að það sé orðið vandamál í heiminum í dag að kenningar sérfræðinga hjá eftirlits- rannsókna- og stjórnvaldstofnunum gangi út á að fá styrki til að viðhalda sjálfum sér fremur en að leiða endilega sannleikann í ljós eða skila áþreifanlegum árangri.
Þorskurinn og ýsan aféta fuglinn
Segir hann að hnignun sandsílastofnsins megi rekja til vaxandi fæðuþarfar þorskfiska, en stefna stjórnvalda er að draga úr veiðum í því skyni byggja upp stofnana. Þyngd þorska eftir aldri hefur verið lágmarki lengi sem sýnir að þeir svelta.
Það gerðist í Barentshafi 1989-90 að 70% langvíustofnsins féll úr hungri.
Í dagblaðinu Bergens Tidende 6. janúar 1990 var haft eftir Odd Nakken, forstjóra norsku Hafró:
"Niðurstöður úr fjölstofna rannsóknum benda til þess að fæðuþörf hins mjög svo vaxandi þorskstofns hafi tvöfaldast frá 1984 til 1986. Þetta kom mest niður á loðnunni. Loðnuát þorsksins þrefaldaðist frá 1984 til 1985 með þeim afleiðingum að loðnustofninn nær kláraðist. Jafnframt át þorskurinn stöðugt meiri síld, smáþorsk og ýsu. Árið 1985 og 1986 át þorskurinn um 500 þúsund tonn af síld, og trúlega er þetta meginskýringin á því að þessir tveir síldarárgangar eru horfnir."
"Þrátt fyrir að þorskurinn æti upp loðnu og síld og seinna bæði ýsu og þorsk, fékk hann samt ekki nóg æti. Frá 1986 hefur þorskurinn vaxið miklu hægar en hann gerði áður. Meðalþyngd 5 ára þorska var 1.8 kg veturinn 1986 en meðalþyngd 5 ára fiska árið 1988 var einungis 0.7 kg."
Í skýrslunni sem nú er lögð til grundvallar friðun á fugli sé talað um að makríll geti átt þátt í hnignun sandsílastofnsins. Makríllinn komi samt ekki til sem neinu nemur fyrr en löngu eftir að sandsílastofninum var farið að hnigna.
Væri ekki nær að friða fæðu fuglana, sandsílið, frá áti þorsksins með því að veiða meiri þorsk?
Árið 2002 skrifaði ég fyrst um sjófugladauða fyrir norðan. Þar var bæði hungraður fugl og horaður farinn að reka í land. Ástæðan var fæðuskortur, sennilega þorskurinn og ýsan sem var að aféta fuglinn.
Þorskurinn þarf 1000 tonn á klukkutíma
Þorskstofninn við Ísland þarf um 24 þúsund tonn af fæðu á sólarhring til að viðhalda sér, eða um þúsund tonn á klukkutíma. Þá étur ýsan sandsílið á botninum þegar það er niðri í sandinum. Samt má ekki einu sinni ræða þann möguleika að það sé fiskurinn sem hafi komið við sögu varðandi minnandi æti fyrir sjófugl.
Náttúruverndarvitleysa byggð á þekkingarskorti
Maður skilur þetta ekki. Þetta er alheims náttúruverndarvitleysa sem þarna er í gangi sem byggir á því að náttúran eigi að njóta vafans. Þá spyr ég hvaða vafa? Þessi vafi er það sem ég kalla þekkingarskort. Þar að auki er þetta stjórnarskrárbrot. Þarna er engin bráð hætta. Það má ekki svifta menn atvinnuréttindum og hlunnindum nema brýn ástæða sé til og þá komi fullar bætur í staðinn.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 3.7.2024 kl. 16:41 | Facebook
Athugasemdir
Snýst þetta ekki allt um einhverja aðlögun að kröfum og reglugerðum Evrópusambandsins, plús að einhverjir hvalaskoðunarpáfar í ferðaþjónustunni hafa orðið varir við að þýskir túristar lyfti brúnum yfir því að menn éti lunda á Íslandi? Líffræði og vísindi eru ekki hátt skrifuð ´þarna
Quinteiras (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 18:03
Þetta liggur í augum uppi, en það getur verið erfitt að eiga við fólk með völd, en minna vit.Vonandi nær valdhafinn áttum og sér þetta, annars erum við í vondum málum!!!
Eyjólfur G Svavarsson, 3.2.2012 kl. 13:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.