17.11.2010 | 17:16
Þarf ekki Rannsóknarnefnd fiskveiðistjórnunar?
Sem kunnugt er hefur hvorki gengið né rekið að byggja upp þorskstofninn. Samt er enn haldið áfram á sömu braut og alltaf minnkar aflinn.
Ég hef gagnrýnt þetta í tæp 30 ár, alltaf í grundvallaratriðum á sama hátt, að mikilvægt sé að huga að vexti fiska til að sjá hvort þeir hafi nóg að éta. Vaxi þeir vel er allt í góðu, en sé vöxtur hægur þá vanti mat. Stofninn sé hlutfallslega of stór miðað við fæðuframboðið og því þurfi að veiða meira, grisja stofninn, til að auka þannig vöxt og þar með afrakstur. Stjórnandi uppbyggingarinnar, Hafró hefur með öllu hundsað þessi rök.
Það er kominn tími til að Alþingi setji þessa ráðgjöf í hlutlausa rannsókn því það virðist borin von að Hafró snúi af sinni stefnu. Þeir taka ekki faglegum rökum og ekki virðist unnt að kryfja þessi mál opinberlega Fjölmiðlar eru meðvirkir og leita ekki álits annarra en hinna opinberu ríkisreknu vísindamanna. Því síður skyggnast þeir dýpra í málin og aldrei minna þér talsmenn Hafró á að ekkert af loforðum þeirra hafi staðist.
Þá minnast fréttamenn aldrei á sams konar gagnrýni, sem birtist í erlendum sjávarútvegsblöðum, en gagnrýni á "vísindin" fer ört vaxandi. Þöggunin er algjör.
Í sjónvarpsviðtali 2001, fyrir 10 árum, hélt ég því fram að niðurskurðurinn þá myndi ekki leiða til uppbyggingar stofnsins heldur myndi hann áfram minnka. Þetta var þegar þeir týndu 600 þús. tonnunum.
Þetta viðtal, Framvinduspá JKr 2001, er hér
Síðdegis sama dag komu þeir í stúdio Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ og Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró til þess að ræða það hvers vegna 600 þús. tonn hefðu "týnst" og hvernig horfurnar væru fram undan.
Þetta viðtal, Brostnar vonir, er hér
Bæði þessi viðtöl eru mjög athyglisverð í ljósi þess sem síðar gerðist. Ég hafði rétt fyrir mér þarna eins og sjá má af meðfylgjandi súluriti. Er ekki kominn tími til að tengja?
Myndin sýnir þróun þorskaflans frá 1990. Eftir stöðugan niðurskurð í nokkur ár var skorið ærlega niður 1994 og 95 til að hressa stofninn við. Aflamarkið var aukið fram til 1999 og sögðu menn þá að friðunin væri að bera árangur. Græna súlan sýnir árið sem sjónvarpsviðtalið er tekið og ég held því fram að aflinn muni halda áfram að minnka. Það reyndist rétt, botninum var náð 2008 þegar enn var dregið úr sókn og sett 20% aflaregla. Hvernig skyldi framhaldið verða?
Þessar videomyndir og aðrar má finna á
http://www.youtube.com/fiskimyndir
Nýrri síðu, sem ég hef komið upp.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 19.11.2010 kl. 18:16 | Facebook
Athugasemdir
Mætum á Austurvöll fimmtud. kl. 14.00, biðjum Alþingi um,
frjálsar handfæra veiðar, sem leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga!
Aðalsteinn Agnarsson, 17.11.2010 kl. 20:37
Sælir strákar! Oft horfði maður á þessi viðtöl við Ragnar í Líú,oftast var hann að grátbiðja um gengisfellingu ef ég man rétt. Þarna er fiskifræðingur,sem viðurkennir ofmat á stofnstærð,gerir ráð fyrir þorskgöngu frá Grænlandi svo og æti,sem er loðna og hvorutveggja bregst.Er hægt að ganga að eihv.vísu í göngu fiskistofna,öðru en að þeirra skynfæri elta æti og leita á grunnsævi til hrigninga? Varla fara 600 þúsund tonn á allsherjar flipp til að skemmta sér,spyr fávís kona. Vandist þó góðum aflabrögðum hér áður fyrr,eitthvað hefur brugðist,t.d. stjórnunin.
Helga Kristjánsdóttir, 17.11.2010 kl. 22:47
Athyglisvert
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.11.2010 kl. 02:48
Athyglisvert að kristján upplýsir að Hafró sé aldrei um borð í veiðiskipunum. Fyrir mér er þetta sama og að brottkastið sé algerlega óþekkt stærð hjá Hafró. En Kristján viðurkennir í framhjáhlaupi að brottkast eigi sér stað en segir það ekki í neinum mæli til að skýra ofmatið. Forstjóri Hafró og Kristján verja kvótakerfið. Kristján er undir áhrifum af því að lítill kvóti heldur uppi háu leiguverði og verðmæti upphaflegu sægreifanna sem réðu hann til starfa á sinni tíð. Það eru auðvitað hagsmunir að halda uppi gengi hlutabréfa með því að gefa ekki út ný hlutabréf heldur bara jöfnunarhlutabréf til upphaflegu gömlu hluthafanna. En hagsmunir forstjórans eru mér óljósari aðrir en þeir að hann stýrir veiðinni vel eftir sínu módeli. Hvorugur skýrir hvernig maður getur stýrt því að bara þorskur eða bara ýsa komi hér og þar án þess að brottkast þurfi að koma til.
Auðvitað er grisjunaraðferðin lógísk til að jafna út sveiflurnar. Taka kúfana ofanaf en skorturinn á veiðifiski stýrir sér sjálfur því menn minnka þá sóknina þegar hún borgar sig ekki.
Allavega hefur þetta kerfi gersamlega brugðist við að byggja upp fiskistofna. En það hefur gert marga auðnuleysingja ríka sem maður hittir í lúxuslífi þeirra erlendis. Það gerir kleyft að senda út togar kl þetta og láta hann koma til baka klukkan þetta svona 100 tímum seinna með 200 tonn af karfaflökum og ekki neitt annað. Guggan verður áfram gul og Flateyri getur orðið ferðamannastaður með tímanum.það er allavega áþreifanlegur árangur.
Halldór Jónsson, 18.11.2010 kl. 11:28
Brottkastið er innbyggt í aflamarkskerfið og dæmi eru um að miklum afla sé fleygt í einni veiðferð. Ekki er langt síðan að skipstjóri upplýsti að hann hefði orðið að skila í sjóinn 70 tonnum af ufsa eftir að útgerðarmaðurinn upplýsti að ufsakvóti væri ófáanlegur fyrir ásættanlegt verð.
Við óbreytt kerfi þyrfti að stórhækka verð til útgerða á meðafla sem óhjákvæmilega kemur í öll veiðarfæri.
Árni Gunnarsson, 19.11.2010 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.