Nú þarf að veiða meiri fisk

Kreppan mun að öllum líkindum dýpka með haustinu. Ríður því á að auka framleiðslu til að afla þjóðinni gjaldeyris. Löngum voru sjávarafurðir verðmætasti útflutningurinn en síðustu ár hefur ferðaþjónusta orðið sífellt mikilvægari í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. En hún er horfin, hvarf eins og dögg fyrir sólu á einni nóttu. Nú þarf að veiða meiri fisk og fyrsta skrefið er að gefa handfæraveiðar alveg frjálsar.


Sjávarauðlindin með fiskinum er enn á sínum stað en hún hefur gengið í gegn um hremmingar aðallega vegna niðurskurðar í nafni uppbyggingar fiskstofna og misskiptingar, þar sem sífellt meiri hluti aflans hefur færst til stórútgerða á kostnað þeirra smærri og sjávarþorpa landsins. Þá virðist það vera keppikefli kvótahafa að halda afla niðri, mynda skorststöðu, sem hækkar fiskverð og leiguverð á kvóta.

Niðurstöður úr nýförnu togararalli sýna að þorskstofninn fer hraðminnkandi en vísitala þorsks mældist nú um 25% lægri en í fyrra og um 50% lægri en hún var 2017. Þar sem ráðgjöf um leyfilega veiði byggir á að veidd séu 20% stofnsins er næsta víst að aflaheimildir í þorski muni fara úr 260 þús. tonnum í um 200 þús. tonn, minnka um 60 þús. tonn, beiti Hafró ekki einhverjum reiknibrellum til að fegra myndina um árangur sinn í uppbyggingu fiskstofna.

Þar sem nú er bæði sölutregða og verðfall á fiskafurðum, var gefin út reglugerð þar sem heimilt verður að færa  25% af kvóta núverandi fiskveiðiárs yfir á næsta ár. Ef allir nýta sér það þá verður  einungis 15% sókn í þorsk á þessu fiskveiðiári. Næsta ár, þegar geymslunýtingin bætist við, hækkar veiðihlutfallið í 30% og verður enn hærra ef aflaheimildir verða minnkaðar núna, eins og margt bendir til. Veiðihlutfallið fer jafnvel í 30%. Auk þess rýrnar fiskur við geymslu í sjó eins og dæmin sanna. Það verður úr vöndu að ráða fyrir Hafróið ef þessi staða kemur upp?

Þessi stefna um fast veiðihlutfall í síbreytilegu umhverfi, friðun smáfiskjar, hrygningarstopp og hvað þetta nú allt heitir hefur beðið algjört skipbrot. Þetta eru allir búnir að sjá nema ráðamenn þjóðarinnar, sem leyfa Hafró að dandalast áfram í vitleysunni afskiptalaust. Síðasti skandallinn er stóra grásleppumálið, þar sem menn voru skikkaðir til að taka upp veiðarfæri í bullandi fiskgegnd og sjómenn á vestanverðu landinu komust ekki einu sinni á sjó. Til grundvallar "stofnmati" var afli í botntroll í togararalli en grásleppa og rauðmagi eru uppsjávarfiskar og eru útbreiddir um allt N- Atlantshaf.

Þegar vegferðin undir þeirra stjórn hófst var lofað 500 þús. tonna stöðugum árlegum afla þorsks en nú fer hann líklega niður fyrir 200 þús. tonn. Í hverra þágu eru ráðamenn okkar að vinna, sem trúa blint á "vísindamenn" eða réttara sagt láta þá plata sig endalaust?

Grein úr Morgunblaðinu 9. júní 2020

Hér má svo afleiðingu af uppbyggingu hrygningarstofns, sjálfsát eða kannibalisma.


Bloggfærslur 9. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband