23.2.2020 | 14:00
"Hlýnun sjávar" er afsökun fyrir öllu sem menn vita ekki.
Sérfræðingur Hafró í loðnumálum sagði nú í hádegisfréttum að loðnan hefði breytt göngumynstri og hrygningartíma vegna hækkandi sjávarhita. Hvar er sjávarhita að hækka og síðan hvenær? Allar mælingar sýna að hiti sjávar hefur farið lækkandi frá 2003. Hann bætti líka við að þeir hefðu trassað að rannsaska hrygningartíma, hrygningarstaði og afkomu seiða eftir hrygningu. Merkilegt, ég vissi ekki betur en að í öllum leiðöngrum eru tekin átusýni með reglulegu millibili og þegar ég var á sjó með rannsóknaskipum fyrir 50 árum voru fisklirfur veiddar í svokallaða doktora, átufangara sem dregnir voru á miklum hraða. Kannski eru menn á tölvuöld hættir að vinna úr líffræðigögnum?
Skoðum nokkur dæmi um sjávarhita, fengin úr gagnagrunni - Hafró.
Hér er sjávarhiti við Grímsey 1987-2020.
Þar er áberandi samfelld kólnun frá 2003.
Hér eru hitamælingar á bauju við Vestmannaeyjar.Þar hefur meðalhitinn verið að lækka sl. 10 ár.
Svo er hér sá samanburður sem oftast er notaður en það er hitastig að vori á 50 m dýpi á Siglufjarðarsniði, rauða línan. Ekki er að sjá að hiti nú sé eitthvað meiri en hann var á góðu loðnuárunum 1980-90.
Ef menn ætla að skýra allar breytingar í sjónum út frá hækkandi hitastigi verða þeir að sýna gögn máli sínu til stuðnings eða þá hætta að nota þessi "rök".
Vísindi og fræði | Breytt 20.9.2021 kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)