Ýsuseiðin eru sýnd veiði en ekki gefin

Hafró flaggaði því að loknu haustralli að ýsuárgangur ársins væri mjög stór. Þetta var aðalfréttin, svona til að auka bjartsýni landsmanna. En - þetta eru fingurlöng ýsuseiði, nýbúin að taka sér bólfestu á botni. Þeirra bíður hættulegt líf í umhverfi þar sem þeir smærri eru étnir af þeim stóru. Heil fjögur ár eru í að þessi árgangur komi að ráði fram í veiði, ef hann kemst í gegn um hremmingarnar.

_suargangurinn_1252184.jpg

Þetta er einkennileg ánægja Hafró, segja við þjóðina að von sé á aukinni ýsugegnd eftir fjögur ár, á sama tíma og sjómenn, sem eyða stórum hluta æfi sinnar á hafinu, segja sjóinn fullan af fiski og að ýsa sé til sérstakra vandræða vegna þess að ekki sé til kvóti fyrir henni. Dásamlega kvótakerfið enn á ferðinni.

Í Fréttablaðinu 18. desember 2014 sagði að stór ýsuárgangur kæmi á óvart og að haldbærar skýringar á því af hverju stór ýsuárgangur mældist í haustralli Hafrannsóknastofnunar lægju ekki á lausu. Eina sem sé í hendi er eðli ýsustofnsins hér og annarra í Norður-Atlantshafi. Áfram segir:

"Eins og greint hefur verið frá bendir fyrsta mæling á 2014-árgangi ýsu til að nú sé sex ára hrinu af mjög lélegum árgöngum lokið. Mældist 2014-árgangurinn sá næststærsti síðan haustrall hófst árið 1996 og einungis stóri árgangurinn frá 2003 mældist stærri í fyrstu mælingu árgangsins á sínum tíma. Vísbendingar eru því um að 2014-árgangur ýsu geti orðið stór eftir langvarandi lélega nýliðun".

"Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar segja í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að eðli allra ýsustofna, sem reyndar finnast bara í Norður-Atlantshafi, sé að viðkoma þeirra er ætíð háð miklum sveiflum og orsökin fyrir því er óljós; umhverfisþættir allra þessara ýsustofna eru eðli málsins samkvæmt næsta ólíkir og þá er einnig ljóst að stærð hrygningarstofns hefur lítið með þessar sveiflur að gera. Þannig kom stóri árgangurinn frá 2003 upp af hrygningarstofni sem var í meðallagi stór eða jafnvel minni en það eftir því hversu meðaltal er tekið af mörgum árum".

Ja hérna. Nú er viðurkennt að menn viti ekkert um, þrátt fyrir allar rannsóknir, hvers vegna ýsan allt í einu tekur við sér, en sagt er að "stærð hrygningarstofns hafi lítið með þessar sveiflur að gera". Þetta eru nokkur tíðindi, Hafró er búin um langt árabil að predika stækkun hrygningarstofna svo þeir gefi meira af sér. Sérstaklega á þetta við um þorskinn; búið er að vernda og vernda, setja hrygningarstopp til að hann fái að "gera það í friði", en menn eru enn að bíða eftir Godot; lélegir þorskárgangar koma ár eftir ár þrátt fyrir stærsta hrygningarstofn allra tíma! En stærð hrygningarstofns ýsunnar skiptir ekki máli, segja þeir en hafa ekki hugmynd um hvers vegna klakið heppnast. Voru menn kannski í rauðu peysunni með fiskihúfuna á höfðinu?

Fleira var áhugavert í fréttum af þessu haustralli, eins og segir í tilkynningu Hafró:

"Meira fékkst af flestum tegundum í stofnmælingu að hausti árið 2014 en undanfarin ár og eru vísitölur sumra tegunda þær hæstu frá upphafi haustrallsins árið 1996. Vísitala þorsks er sú hæsta síðan mælingar hófust árið 1996".

Getur verið að aðrir þættir spili inn? Til rannsóknirnar voru leigðir togararnir Jón Vídalín VE og Ljósafell SU en undanfarin ár hafa rannsóknaskip Hafró séð um rallið. Meira veiddist af öllum tegundum í rallinu segir í fréttatilkynningunni.

Þá má spyrja hvort það sé að þakka "nýju" skipunum ? Ætli að sjómenn viti ekki að veiðiskip, áhafnir og veiðiaðferðir skipti máli. Jafnvel þó sé reynt að hafa allt eins frá ári til árs.


Bloggfærslur 2. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband