Röksemdafærsla um ágæti íslenskrar fiskveiðistjórnunar fer í hring.

Í leiðara í Morgunblaðinu laugardaginn 16. ágúst var fjallað um að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefði verið fyrirmynd annarra þjóða vegna þess hve gott það væri. Japanir hefðu verið að herma eftir okkur með frábærum árangri, svo góðum að við ættum að læra af þeim, sem sagðir eru lærisveinar okkar.

Undanfarin ár hafa menn verið gerðir út af örkinni til þess að telja öðrum þjóðum trú um að aflamarkskerfi okkar, kvótakerfið, væri upphaf og endir alls og hefði skilað okkur Íslendingum miklum árangri.

Látið er kyrrt liggja að samtvinnuð stjórn veiða með aflakvótum og ráðgjöf sem styður það kerfi hafi leitt af sér að þorskafli hafi minnkað niður í þriðjung þess sem hann var eftir að "kerfið" var tekið í notkun, að aflaheimildir hafi safnast á færri og stærri hendur og að flest smærri sjávarþorp hafi misst aðgang að fiskimiðunum, fólkið hrakið á brott og eignir þess gerðar verðlitlar.
Mér er fyrir minni þegar ég kom til Skotlands fyrir nokkrum árum og menn þar fóru að hæla íslenska kerfinu í hástert. Þá spurði ég: "Hvaðan fenguð þið þær upplýsingar"? Úr bæklingi frá íslenska sjávarútvegsútvegsráðuneytinu, var svarið. " Einmitt það" svaraði ég.

Öðru sinni flutti ég fyrirlestur í Póllandi um íslenska kerfið og hvernig það hefði leitt til aflaminnkunar, fólksflótta og örbirgðar í hinum smærri sjávarbyggðum. Þá sagði maður í salnum: "Þú ert greinilega ekki sammála Ragnari Árnasyni". Þetta var þegar Pólverjar voru að reyna að koma í veg fyrir að ESB innleiddi hjá þeim kvótakerfi.

Hér að neðan fylgir leiðari Mogga, sem lofar aflamarkskerfið og notar hringlógikk til þess að sanna ágæti þess: Við sögðum Japönum að kerfið væri gott, þeir fóru að prófa og komist að því sama og við eigum að læra af þeim og halda kerfinu áfram.

Ein rök eru að hefði ekki kerfið komið til hefði hér verið allt í rúst. Ekki er reynt að meta hvernig okkar hefði gengið ef beitt hefði verið sóknarmarki líkt og í Færeyjum. 

Hér er leiðarinn úr Mogga og ekki horfir nú vel fyrir gagnrýnendum og andstæðingum kvótakerfisins ef það er þessi stefna sem stjórnar aðgerðum stjórnvalda. Feitletranir eru á ábyrgð bloggfæranda: 

Japanir fikra sig í rétta átt

Fiskveiðistjórnarkerfið íslenska hefur um árabil verið öðrum þjóðum fyrirmynd og æ fleiri hafa séð kosti þess að nýta sér kvótakerfi með varanlegum framseljanlegum veiðiheimildum við stjórn fiskveiða. Hagkvæmnin sem kerfið hefur skilað hér á landi er ótvíræð og hefur leitt til þess að sjávarútvegurinn hefur þróast úr því að þurfa ítrekað að leita til ríkisins, líkt og þekkist víða erlendis þar sem útgerðin er niðurgreidd, yfir í að vera arðbær atvinnugrein og undirstaða efnahagslífs og velferðar í landinu.


Mbl.is greindi í fyrradag frá því að Japan hefði verið að stíga skref í þessa átt með ágætum árangri á afmörkuðum sviðum. Á vefnum Seafoodsource. com er sagt frá því að fyrir þremur árum hafi á tilteknu svæði í Japan verið brugðist við minnkandi rækjustofni með því að úthluta kvótum þannig að miðað var við veiðireynslu síðustu fimm ára á undan og úthlutunin höfð nokkrum prósentum minni en veiðin á því tímabili. Að auki voru gerðar kröfur um möskvastærð til að hlífa minni rækjunni og er árangurinn af því sá að nú er stærri og verðmætari rækjan um 70% veiðinnar en var áður aðeins 20- 30%.

Breytingin er einnig sú að í stað þess að stundaðar væru samkeppnisveiðar á skömmum tíma með tilheyrandi óhagræði, hefur veiðitímabilið lengst og fersk rækja kemur á markaðinn þegar eftirspurn er mikil, sem skilar hærra afurðaverði. Í Japan er vilji til að stíga frekari skref í þessa átt og fyrirhugað að beita kvótakerfi við fiskveiðistjórnun fleiri tegunda, svo sem við makrílveiðar.

Í tíð fyrri ríkisstjórnar hér á landi var margt reynt til að grafa undan því fiskveiðistjórnarkerfi sem komið var á fyrir um aldarfjórðungi og rúmlega það. Stærri hluti veiðanna en áður var tekinn út úr kerfinu með því óhagræði sem slíku fylgir og að auki var viðbótarskattlagningin slík að hún sýndi einbeittan vilja til að knésetja fyrirtækin í greininni. Þó að þetta hafi skaðað greinina mikið, og þar með allt atvinnu- og efnahagslíf í landinu, tókst fyrri valdhöfum ekki að umbylta greininni þannig að hún yrði aftur svo veikburða að hún félli í fang ríkisins sem gæti í framhaldinu stokkað hana upp að eigin geðþótta og með þeim fordómum sem einkenndu viðhorf fyrri ríkisstjórnar í garð sjávarútvegsins.

Nú er unnið að því að endurskoða starfsumhverfi sjávarútvegsins og mikilvægt að þeirri vinnu ljúki sem fyrst og á sem farsælastan hátt. Í því sambandi er full ástæða til að taka mið af því að aðrar þjóðir hafa horft til Íslands sem fyrirmyndar vegna þess hvernig staðið hefur verið að stjórn fiskveiða á síðustu áratugum, með fyrrnefndum undantekningum. Því má segja að við ættum að leitast við að læra af þeim sem hafa lært af okkur og lagfæra hið fyrsta það sem aflaga hefur farið í fiskveiðistjórnarkerfinu á síðastliðnum árum.

Ísland getur lært af lærisveinum sínum í sjávarútvegi.

--------------------------------

Það sem segir í niðurlagi leiðarans sýnir að röksemdafærslan hefur farið í hring. 

Brátt eru á dagskrá ný lög um stjórn fiskveiða, sem miða að því að festa núverandi kerfi í sessi, tryggja að venjulegir landsmenn verði áfram sviftir réttindum til fiskveiða á eigin miðum. Ég hef reynt að alþingismenn virðast synda fljótandi að feigðarósi í þessum málum og vilja ekki gera sér grein fyrir þeim skaða sem kvótakerfið hefur valdið landsmönnum. Allt brendit til þess að þeir munu stimpla tillögur stjórnvalda um að festa kerfið í sessi og gera samning við kvótahafana í 20-40 ár og útiloka þannig fólkið í sjávarbyggðunum í jafn langan tíma.

Í hvers lags landi búum við eiginlega? 


Bloggfærslur 17. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband