31.1.2014 | 17:32
Íslendingar leggjast gegn aukningu makrílaflans!
Samningaveiðunum um makríl hefur verið slitið í bili. Ágreiningsefnin eru þrenn, aflahlutdeild hvers lands, tímalengd samningsins og hversu mikið skuli veiða á komandi ári. Íslendingar vilja halda sig við ráðgjöf ICES en aðrir, sennilega Norðmenn og Færeyingar, vilja auka þann afla um 40-60%, upp í nær eina og hálfa milljón tonna.
Nú hefur það verið svo að undanfarin fjögur ár hafa Færeyingar og Íslendingar verið ljótu karlarnir, þeirra veiði hefur bæst við úthlutaðar aflaheimildir frá ICES, og þjóðirnar sakaðar um grófa ofveiði, sem myndi ganga nærri makrílstofninum.
Stofninn var "mældur" 2010 með því að telja hrogn í hafinu frá Biskayaflóa út fyrir Írland og norður eftir öllu Atlantshafi. Á þessum hrognatalningum byggðist kvótinn 2010-13. Næst voru hrognin svo talin í fyrra en það er gert á þriggja ára fresti, og þá voru niðurstöður þær að stofninn var orðinn tvöfalt stærri þrátt fyrir gegndarlausa ofveiði okkar og Færeyinga!
Þá var illt í efni. ICES virðist ekki hafa þorað að gefa út veiðiráðgjöf í takt við eigin mælingar heldur miðuðu þeir ráðgjöfina við meðalafla þriggja síðustu ára, að ofveiðinni meðtalinni. Ráðgjöfin fyrir 2013 var 520 þús. tonn. Ef þeir hefðu trúað eigin mælingu hefði þeir orðið að þrefalda sig. En það má ekki koma allt of berlega í ljós að stofnmælingin var (og er) della og að "ofveiðin" hafi stækkað stofninn.
En nú vilja Íslendingar fara að vísindaráðgjöfinni, sem alltaf hefur verið röng, og hafa milljarðatugi af veiðiþjóðunum, okkur þar með.
Ekki er öll vitleysan eins en spennandi verður að sjá hverju Íslendingar úthluta sjálfum sér verði ekki af samningum. Kannski að stöðva eigin veiðar til að sýna ábyrgð?
![]() |
Makrílfundi lauk án niðurstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)