Stöðvun úthafsrækjuveiða er hryðjuverk

Veiðar á úthafsrækju voru stöðvaðar 1. júlí sl. Ástæðan var sögð sú að afli fiskveiðiársins væri komin fram úr ráðgjöf Hafró.

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. Störf 150 manna á eru sett í uppnám, því einnig stendur til að breyta fyrirkomulagi veiðanna og kvótasetja þær aftur. Ekki er víst að þeir sem nú stunda veiðarnar fái veiðiheimildir, verði veiðarnar kvótasettar. Þar með er nýuppbyggður markaður væntanlega úr sögunni.

DrawTableVeiðar á úthafsrækju hafa verið frjálsar frá 2010 og ekki verið gefið út neitt aflamark. Nú bregður svo við að ráðuneytið vill takmarka heildaraflann, eftir á, og mæta ráðgjöf Hafró en hún var 5000 tonn fiskveiðiárið 2012/13. Aflinn var að nálgast 6500 tonn svo þeim fannst þeir þurfa að grípa inn í til þess að rækjuna! Skítt með mannskapinn.

Þetta er vægast sagt einkennilegt því alveg frá árinu 2000 hefur aflinn verið miklu minni en ráðgjöf Hafró, að undanskildu árinu 2011, þá skreið hann rétt yfir mörkin, - í frjálsri sókn. Þessi vanveiði, ef kalla hana má svo, er svo hastarleg að menn ættu að eiga eitthvað inni ef eitthvað væri að marka þessa ráðgjöf.

Frá árinu 2005 hefur veiðiráðgjöfin hljóðað upp á samtals 57 þús. tonn en aðeins voru veidd 33 þús. tonn eins og sjá má af töflunni hér að ofan. "Inneignin" er því um 24 þús tonn. Þessi svokallaða veiðistjórnun er náttúrulega tóm steypa; væri hugmyndafræðin um að veiðarnar stjórnuðu stofnstærð rétt, ætti ekki að þurfa að stöðva veiðarnar til að "vernda" stofninn.

Misræmi í aflabrögðum og ráðgjöf

CPU-IndexEinn mælikvarði sem notaður er á stofnstærð er afli á togtíma, kg/klst. Aflinn hjá veiðiskipum er nú 135 kg/klst, sá sami og hann var árin 2001 og 2002, en þá hljóðaði ráðgjöfin upp á 25-35 þús. tonn.

Stofnvísitala Hafró hefur hins vegar minnkað um helming frá 2002 og ráðgjöfin hefur verið minnkuð enn meira eða í 5000 tonn, 5-7 falt. Hvernig gengur þetta upp?

Af ofansögðu er ljóst að "stjórn" veiðanna hefur ekki valdið neinu nema tjóni, töpuðum afla og atvinnumissi. Veiðarnar stjórna ekki stofnstærð. Aðrir þættir vega þar miklu þyngra, enda segir Hafró í síðustu skýrslu sinni:

"Niðurstöður SMR árið 2012 benda til að stofninn fari minnkandi, afrán þorsks er frekar mikið og nýliðun virðist vera léleg eins og verið hefur undanfarin ár. Aukið magn grálúðu á svæðinu hefur einnig leitt til enn frekara afráns á rækju."

Rækjan er étin upp af þorski, grálúðu og öðrum fisktegundum. Samt er vitleysunni haldið áfram.

Að öllu samanlögðu þá virðist sem tilgangur lokunar nú og væntanlegra breytinga á veiðifyrirkomulagi sé einhver allt annar en umhyggja fyrir rækjustofninum. Þá á bara að segja það í stað þess að skýla sér á bak við ímyndaða dýravernd. 

Meira um stjórn rækjuveiða hér


Bloggfærslur 15. júlí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband