6.7.2012 | 14:43
Ekki semja um makrílinn!
Fiskveiðistjóri ESB segir að nauðsyn sé á að semja (taka af okkur veiðiréttinn) því makríll sé ofveiddur og koma verði í veg fyrir útrýmingu stofnsins. - Ofveiddur?
Það er veitt meira en ICES (Alþjóða hafrannsóknaráðið) leggur til, en er eitthvað að marka þeirra ráðgjöf? Farið hefur verið groddalega fram úr henni í Barentshafi, þorskstofninn stækkar og ICES eltir og hækkar ráðgjöfina, þvert ofan í það sem þeir ættu að gera ef þeirra ráðgjöf hefði verið rétt og framúrkeyrslan valdið ofnýtingu stofnsins.
Stofnæling á makríl er tóm vitleysa, hún er gerð á 3 ára fresti og þá með því að telja hrogn í hafinu. Ráðgjöfin er í samræmi við það, auk þess sem hún byggist á því að veiða lítið svo stofninn stækki. Þeir halda nefnilega að það sér best sé að veiða sem minnst svo stofninn stækki. Þeir hugsa ekkert um að fæðan takmarkar stærð fiskstofna og stór stofn getur étið sig út á gaddinn.
Norskir fræðingar sjá merki um ofbeit á átu í Norðurhafi, það sé einfaldlega ekki nóg fóður fyrir þessa stóru síldar-, makríl- og kolmunnastofna. Þetta getur verið ein ástæða þess að makríllinn sækir á Íslandsmið, það er að verða lítið að éta heima fyrir, - vegna of lítillar veiði.
Við eigum að halda okkar striki og láta ekki hræða okkur til hlýðni. Ef við veiðum sem áður, og þeir líka kemur væntanlega í ljós að stofninn þolir það enda er það eðli fiskstofna að bregðast við aukinni nýtingu með aukinni framleiðslu. Þarna kemur fæðan til sögunnar: Aukin veiði eykur framboð handa þeim sem eftir lifa, vöxturninn eykst svo og nýliðun. Stofninn fer jafnvel stækkandi (Barentshaf) vegna þess að fæðan nýtist betur.
Ekki semja, lærum af kolmunna samningunum!
Meðan ósamið var um hann var veitt langt umfram ráðgjöf og stofninn stækkað i stöðugt. Þegar búið var að koma böndum á veiðarnar með samningum 2005 var lögð til minni veiði og aflinn minnkaði. Sagt var að "gömul" ofveiði hefði valdið því.
Er eitthvað vit í stofnmælingu á makríl?
Í Morgunblaðinu 30. september 2010 skýrir Þorsteinn Sigurðsson hjá Hafró vankantana á stofnmælingu makríls:"Mælingar á makrílstofninum eru ýmsum vandkvæðum háðar. Í fyrsta lagi er fiskurinn ekki með sundmaga og því næst ekki endurkast með bergmálsmælingum frá makrílnum. Við bergmálsmælingar á öðrum fiskum kemur endurvarp hljóðsins að 95% frá sundmaganum. Norðmenn hafa unnið að þróun tækni til að bergmálsmæla makríl, en sú aðferð hefur ekki hlotið alþjóðlega viðurkenningu".
"Í öðru lagi er makríll mjög ofarlega í sjónum og yfir sumarmánuðina er hann ofar en botnstykki skipanna. Þessi staðreynd torveldar enn frekar bergmálsmælingar á makríl. Það er helst á haustin sem makríll leitar neðar í sjónum, en á þeim tíma er makríll lítið eða ekki í íslenskri lögsögu. "
Þar sem bergmálsmælingar hafa ekki dugað til að fínstilla stofnmatslíkön makríls þá hefur frá árinu 1977 verið beitt eggja- eða hrognatalningu, segir Þorsteinn. Í slíka leiðangra er farið þriðja hvert ár og tóku Íslendingar þátt í þeim í fyrsta skipti í ár. Leiðangrarnir stóðu frá janúar og fram í miðjan júní. Egg voru talin syðst og austast í íslensku lögsögunni í lok leiðangursins og alla leið suður í Bisqaya-flóa síðastliðinn vetur. Í eggjatalningunni eru tekin sýni með háfi úr yfirborðslögum sjávar og síðan er reiknað út miðað við fjölda eggja í hverju kasti hversu margir fiskar hrygndu það árið. Til grundvallar liggja fyrir margvíslegar upplýsingar, meðal annars úr fyrri leiðöngrum auk frjósemismælinga, þ.e. heildarfjölda hrogna í hverri hrygnu".
Þetta er nú svo mikil della að maður verður að halda um höfuðið. Hafró hætti áratuga þorskseiða talningum fyrir nokkrum árum vegna þess að ekkert vitlegt fékkst út úr þeim. Sennilega skynsamlegasta ákvörðun þeirra til þessa.

Makrílegg eru talin þriðja hvert ár á skástrikaða svæðinu. Vottur af hrognum fannst þar sem krossarnir eru, árið 2002.
Svona vinnubrögð hljóta að vera heimsmet í ágiskunum, en enginn segir neitt. Stjórnmálamenn trúa "vísindamönnunum" blint og reyna ekki einu sinni að kafa ofan í áreiðanleika ráðgjafarinnar eða reynsluna af henni í fortíðinni.
En, - Ekki semja um makrílinn!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)