Vistarbandið og einokunin - kreppa fiskveiðanna

Ég var að hlusta á þáttinn "Við sjávarsíðuna" í morgun, laugardaginn 26. maí, en þar kom fram að þorskurinn átti meiri þátt í að halda lífinu í íslensku þjóðinni en áður hefur verið talið, miklu meiri en sauðkindin. Hertur þorskur var okkar eina útflutningsvara í 1000 ár og gaf þær tekjur sem þurfti til að geta flutt inn það sem þjóðina vanhagaði um.

Á síðari hluta miðalda fór þjóðinni að hnigna vegna einokunarinnar og vistarbandsins. Frjáls verslun var afnumin og fólk mátti ekki flytja úr sveitum í þéttbýli og var þetta m.a. gert til að koma í veg fyrir að menn gætu haft fiskveiðar að aðalatvinnu.

Nú erum við að sigla inn í sama ástand, einokunin er komin aftur, Bogesen einn má gera út, allir vinna hjá honum og vei þeim sem segir eitthvað ljótt um vinnuveitandann.

Vistarbandið er einnig komið aftur, fólk getur ekki flutt af landsbyggðinni vegna þess að eignir þar hafa fallið í verði og fólk getur heldur ekki flutt úr þéttbýlinu á landsbyggðina því þar er ekki vinnu að hafa - nema hjá Bogesen.

Auk þessa eru Íslendingar aftur komnir í sjálfsstæðisbaráttu eftir um 100 ára frelsi.- Nú við ESB og Kína.

Sagan endurtekur sig

Í pistli á vísindavef háskólans eftir Gunnar Karlsson segir svo um vistarbandið: 

Það er sagt vera algengt í vanþróuðum landbúnaðarsamfélögum að fólk leitist við að takmarka aðra atvinnuvegi, svo sem verslun, og loka þá úti frá samfélaginu.

Á Íslandi kemur andúð á verslun fram strax í Íslendingasögum, einkum verslun sem er stunduð í ábataskyni. Á sama tíma er líka tekið að takmarka leyfi fólks til að stofna heimili án þess að hafa jarðnæði og búfé til að lifa á, og hefur því banni einkum verið stefnt gegn því að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu.

Slíkar takmarkanir á öðrum búskap en sveitabúskap ganga í gegnum Íslandssöguna í dálítið ólíkum og misströngum myndum. Svo seint sem árið 1887 samþykkti Alþingi lög, sem gengu í gildi árið eftir, þar sem mönnum var bannað að setjast að í þurrabúð nema með skriflegu leyfi hreppsnefndar, eftir að hafa sannað með vottorðum tveggja skilríkra manna að þeir væru reglumenn og ráðdeildarsamir.

Tvennt gat einkum vakað fyrir þeim sem vildu takmarka þéttbýlismyndun. Annars vegar var því trúað, með réttu eða röngu, að fiskveiðar væru stopulli atvinnuvegur en landbúnaður. Því væri meiri hætta á að fólk sem lifði á fiskveiðum yrði bjargþrota og lenti á ómagaframfæri hjá bændum. Þessi ótti endurspeglast í lagaákvæðum um að búðseta sé háð leyfi hreppsbúa eða fyrirliða þeirra og hreppsbændur ábyrgir ef búðsetumenn gætu ekki bjargað sér sjálfir.

 Hins vegar gera sagnfræðingar nú jafnan ráð fyrir að það hafi ráðið miklu um afstöðu efnaðra bænda, þeirra á meðal flestra embættismanna landsins, að þeir hafi óttast að missa vinnuafl til sjávarsíðunnar og að þurfa að keppa við sjávarútveg um vinnufólk. Bak við umhyggju löggjafans fyrir óforsjálu fólki sem elti svipulan sjávarafla út úr öryggi sveitanna þykjast fræðimenn greina ágjarna tilhneigingu til að einoka vinnuafl landsmanna í þágu landbúnaðar.

Að vísu gerðu margir auðugir bændur og embættismenn út fiskibáta á vertíðum, en þá gátu þeir notað vistarbandið til að láta vinnumenn sína róa á sjó, draga húsbændum sínum afla og fá aðeins brot af verðmæti hans greitt í laun (kannast einhver við þetta?). Aldrei verður skorið úr því með vissu hvort þessara tveggja sjónarmiða réði meiru um andúð ráðandi afla í samfélaginu á þéttbýlismyndun í sjávarþorpum. Um það verður hver að hafa þá skoðun sem honum þykir sennilegust.

                            ----------------------------


Athyglisverð lesning með beina tengingu í nútímann. Sagan er að endurtaka sig:

Ef við skiptum "auðugum bændum og embættismönnum" út með  "stórútgerðarmönnum" erum við að lýsa ástandi dagsins í dag eins og það birtist í auglýsingum frá stórútgerðinni og tómthúsmönnum hennar.


Bloggfærslur 26. maí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband