26.4.2011 | 18:01
Glórulaus fiskveiðiráðgjöf Hafró
Mikil umræða er jafnan um fiskveiðistjórnarkerfið og er þá gjarnan talað um "kvótann", hver hafi fengið hann, hver eigi að fá hann, hvort eigi að leigja hann eða bjóða hann upp, hvort eigi að auka hann eða minnka og þar fram eftir götunum. Nær ekkert er fjallað um grundvöll sjálfs kerfisins, en í upphafi þess var ákveðið að fiskstofnar væru ofveiddir, fiskiskipastóllinn væri of stór og það þyrfti að takmarka sókn í fiskinn. Reynt var að takmarka sókn í þorsk, sem var eina ofveidda tegundin í þá tíð (1970-1975), fyrst með því að stækka möskva til að hlífa smáfiski, þriggja ára þorski, síðar með því að takmarka þann þorskafla sem skip mættu koma með í land úr sínum veiðiferðum. Það var kallað skrapdagakerfi, þorskur mátti ekki fara yfir ákveðna hlutdeild af afla. Þarna varð brottkastið til, menn hentu fiski til að láta líta svo út að farið væri að reglum.
Höfundur og hugmyndasmiður þessarar meintu ofveiði var Hafrannsóknastofnun, í daglegu tali kölluð Hafró vegna þess að menn nenna ekki að skrifa langa nafnið. Í upphafi var árangurinn sá að mikið dró úr sókn í smáþorsk (Sigfús Schopka, Ægir 12/1980):
"... fjöldi þeirra fiska sem eru 3 og 4 ára að aldri hefur minnkað verulega síðastliðin ár eða eftir að áðurnefndar friðunaraðgerðir komu til framkvæmda. Þessi minnkun á 3 og 4 ára fiski í lönduðum afla gæti þýtt að klak hafi misfarist eða hér sé um áhrif friðunar að ræða. Niðurstöður seiðarannsókna og ungfiskarannsókna benda aftur á móti til þess að klak hafi ekki brugðist að undanförnu - flestir árgangar eru að minnsta kosti meðalárgangar, sumir jafnvel stórir eins og 1976 árgangurinn - þrátt fyrir lægð í hrygningarstofni (feitletrað J Kr). Það verður því að gera ráð fyrir að minnkandi hlutdeild smáfisks í afla megi rekja til friðunaraðgerða."
....þannig hefur sókn í 3 ára þorsk minnkað um 78% skv. bráðabirgðatölum, 35% í 4 ára þorsk og 25% í 5 ára þorsk en sóknarminnkun í eldri þorsk er hverfandi...
"...Friðun smáþorsks hefur því leitt til þess að hámarksafrakstur stofnsins hefur aukist um 55 þúsund tonn á ári. Hins vegar hefur þessi hámarksafrakstur aldrei náðst þar sem sóknin er allt of mikil, sérstaklega í eldri þorsk. Með frekari minnkun sóknar mun afraksturinn aukast nokkuð (hámarksafrakstur er talinn 450 þús. tonn á ári) en aðalávinningur sóknarminkunarinnar er arðbærari veiðar þar sem afli á sóknareiningu geti vaxið enn talsvert".
Aflinn óx og þeir Hafrómenn höfðu áhyggjur af því að þorskafli á úthaldsdag hefði aukist svo mikið að það kallaði á frekari aukningu skrapdaga:
"Eftir því sem þorskstofninn stækkar í framtíðinni og afli á sóknareiningu vex, útheimtir það enn frekari aukningu skrapdaga"....
Þetta skrifaði Sigfús Schopka fiskifræðingur hjá Hafró í tímaritið Ægi í árslok 1980 en þá var mjög dregið úr vexti þorsksins og hann fór í lágmark 1983. Þá var þyngd 6 ára þorska fallin úr 4,5 kg 1976 í 3,0 kg 1983, þyngdarminnkun um 35%. Þessi niðurstaða þýddi aðeins eitt: Tilraunin að friða fisk til að geta veitt meira seinna hafði mistekist. Það var ekki fæðugrundvöllur fyrir stærri þorskstofni.
Þarna hefðu menn átt að staldra við og meta niðurstöður hlutlægt. Það var ekki gert: Hafró vildi ekki viðurkenna mistök og herti friðunartökin þrátt fyrir vel rökstudd andmæli mín og annarra vísindamanna. Endirinn á vísunni er sá að aldarþriðjungi síðar eru þeir enn sama sinnis, ofveiði er ríkjandi, enn þarf að "byggja upp stofninn".
Á þessu tímabili hefur hins vegar áherslan snúist: Ekki er lengur markmiðið að geta aukið veiðar heldur að halda þeim í lágmarki til að hámarka eignir sægreifa, skapa skortstöðu, sem hækkar leiguverð og varanlegt verð á kvóta til að fyrirtækin séu verðmeiri á pappírnum. Hafró segist aðeins vera ráðgefandi um stjórn fiskveiða á þann hátt að mæla stofninn og segja til um hversu mikið megi veiða af hverri tegund. Þeir vilja hins vegar alls ekki leggja nokkurt mat á hvort aflamark, sem leiðir til brottkasts, sé skynsamleg aðferð til stjórnunar eða hvort aðrar aðferðir væru betri.
Færeyingar töldu að sóknin væri of mikil og settu á sóknartakmarkanir án heildarafla eða tegundatakmarkana. Brottkast er að þeirra dómi ekkert, menn koma með að landi það sem er söluvara eða búbót til heimila. Allir sem vinna í kerfinu eru nokkuð sáttir þó auðvitað sé togstreita um veiðidaga milli skipaflokka. Það eina sem sækir að þeirra skipan eru sífelldar ásakanir fiskifræðinga um að sóknin sé of mikil og draga beri úr veiði.
Fiskimannafélagið talar um "hinn árlega bardaga um fiskidagana". Hvítflibbarnir í Þórshöfn vilja fara að ráði ICES mafíunnar um að draga veiðarnar saman, til að geta veitt meira seinna.
Þrátt fyrir herfilegan árangur skoðar Hafró ekki árangur sinnar eigin ráðgjafar. Stofnunin rangtúlkar merki um hungurástand á miðunum, tekur hvorki tillit til niðurstaðna annars staðar frá eða gagnrýni annarra fræðimanna. Innan stofnunar er starfsmönnum haldið í handjárnum, þeir fá ekki að tjá sig nema undir eftirliti og passað er upp á að stýra öllum samskiptum í gegn um forstjóra. Hann eða hans trúnaðarmenn eru til staðar á fundum til að passa upp á "sannleikann". Einungis örfárra manna klíka stjórnar öllu á stofnunni. Mistök eru ekki viðurkennd og ég hef það á tilfinningunni að stofnunin sé notuð til þess að halda aflanum niðri til þess að leiguverð á kvóta lækki ekki.
Fyrir nokkrum árum, þegar Davíð Oddson lofaði allt í einu 30 þús. tonna kvótaaukningu, hitti ég gagnmerkan skipstjóra, Pétur Stefánsson, fyrrum stjórnarmann í LÍÚ, niðri á höfn. Hann sagði við mig: "Veistu það Jón að það versta sem hægt er að gera er að auka kvótann um 30 þús tonn, það myndi lækka fiskverðið". Lækka fiskverðið, hugsaði ég, hann meinar auðvitað leiguverðið á kvótanum.
Hafró vill ekki skoða aflamarkskerfið með opnum huga í þágu bestu nýtingar miðanna, þeim er uppálagt að halda veiðunum niðri til að halda leigu á kvóta í hámarki og verðmæti fyrirtækja, sem byggist á pappírsvirði á "kvótaeign", í hámarki. Eru einhverjar aðrar skýringar á tregðu Hafró eða stjórnmálamanna að meta árangur núverandi stjórnunaraðgerða, sem gefa okkur 1/3 aflans eins og hann var 1929?
Það mætti spyrja Villa Egils, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í Sjávarútvegsráðuneytinu, sem nú fer hamförum í þágu LÍÚ, sem vill endilega eignast allar veiðiheimildir.
Vísindi og fræði | Breytt 2.5.2011 kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)