11.10.2011 | 17:20
Uppeldisskilyrði laxfiska í Jöklu?
Í Fréttablaðinu 8. október var skýrt frá því að ætlað sé að gera laxastiga í Steinbogann, sem er merkilegt náttúrufyrirbrigði í Jökulsá á Dal. Áin rennur undir steinboga á um 20 m kafla og þar er hægt að ganga þurrum fótum yfir ána þegar lítið er í henni. Laxastigi myndi stór skemma þetta merkilega náttúruundur. Tilgangurinn er að opna laxi um 60 km leið upp eftir ánni.
Veiðimálastofnun hefur látið hafa eftir sér að "rafleiðni í vatninu bendi til góðra uppeldisskilyrða fyrir lax og bleikju", án þess að það sé skýrt frekar eða vísað til rannsókna.
Árið 2008 rannsakaði ég þetta vatnasvæði frá fjöru til fjalls í þeim tilgangi að meta uppeldisskilyrði laxfiska. Veitt var með rafmagni í öllum sprænum og Jöklu sjálfri og aðrar mælingar og athuganir gerðar.
Í samantekt á niðurstöðum skýrslunnar segir:
Ekki eru merki um að botngróður og botndýralíf sé farið að myndast í Jöklu eftir að jökulleirinn hvarf úr henni eftir að hún var stífluð. Hvort það gerist er ekki enn vitað því ef yfirfallsvatni verður hleypt í farveginn árlega er hætta á að það kæfi nýmyndaðan gróður sem er undirstaða dýralífs. Tilgangslaust er að setja sumaralin seiði í ána meðan gróður nær sér ekki af stað.
Möguleikar til smáseiðasleppinga á ófiskgeng svæði eru takmarkaðir. Helst má nefna Fossá og Laxá í þessu sambandi en þær eru stuttar og virðast ófrjósamar ef dæma má á vexti þeirra fáu seiða sem veiddust. Aðrar ár hafa litla sem enga möguleika. Kaldá getur ekki fóstrað laxaseiði og þverárnar uppi í Jökuldal eru smáar og brattar. Efst í Jökuldal eru líklegar ár en þær eru svo hátt yfir sjó að lax myndi varla þrífast. Það borgar sig engan veginn að sleppa sumarseiðum, en gera má tilraunir á völdum stöðum til að sjá hvort laxaseiði þrífist yfirleitt Betra er að beina kröftunum að gönguseiðum og sleppitjörnum, sem þegar hafa sannað gildi sitt
Veiðistaðir eru nú þegar í ám við sleppistaði í og neðan við Laxá. Tjarnir ofar í ánni munu leiða í ljós hvort og hve langt Jökla er fiskgeng. Svæðið er það stórt að erfitt getur reynst að finna fiskinn. Langan tíma mun taka að finna veiðistaði og byggja upp þekkingu til veiðiskapar.
Rétt er að gera tilraunir sem stungið er upp á og fylgjast með niðurstöðum, svo og framvindu lífríkis Jöklu.
Mér er ekki kunnugt um hvort þær tilraunir sem stungið var upp á hafi verið gerðar. Meðan svo er þá er óverjandi að byggja mat á gagnsem laxastigans með ágiskunum eins og Veiðimálastofnun virðist gera skv. fréttinni, sem vitnað er í hér að ofan.
Vísindi og fræði | Breytt 5.2.2016 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)