16.3.2010 | 17:46
Ofveiðistjórnun- stjórntæki blekkingarinnar
Stjórn fiskveiða felst ekki lengur í að hámarka afrakstur fiskistofna heldur að halda vinnunni og blekkja almenning. Með því að halda fram að fiskstofnar séu ofveiddir þá blæs rannsóknarapparatið (Hafró) út, það verður að efla rannsóknir, segja menn. Eftirlitsapparatið (Fiskistofa) stækkar, það verður að passa upp á reglurnar, smáfiskavernd, aflahámörk og hvað þetta allt heitir, - til að koma í veg fyrir ofveiðina. Til þess að halda vinnunni má ofveiðin aldrei hætta. Hver kannast ekki við: Það þarf að auka fé til rannsókna?
Ef ekki væri ofveiðin þyrfti ekki alla þessa menn. Athyglisvert er að svo lengi sem ég man eftir hefur þorskstofninn verið ofveiddur. Þegar veiddust 500 þús tonn á sjötta áratugnum var hann ofveiddur, þá voru innan við 10 menn að vinna við fiskirannsóknir. Hann var enn ofveiddur 1970 þegar aflinn var um 400 þús tonn, og áfram og áfram. Í dag eru veidd 150 þús tonn og enn er þorskurinn ofveiddur. Útlendingarnir eru farnir, togaraflotinn helmingaður, netaveiðiflotinn ónýtur, trilluflotinn laskaður og 2 trillur róa nú með net í Faxaflóa. Og enn er ofveiði!
Þetta ofveiðikjaftæði er alheims vandamál: Hver kannast ekki við ofveiðina í Norðursjó, við Kanada, í Eystrasalti og reyndar í Barentshafi, en það er eini staðurinn þar sem stunduð er veiði langt umfram tillögur um sjálfbæra veiði. En þar er afli stöðugt vaxandi, vegna ofveiðinnar.
Síðustu daga hefur LÍÚ notað ofveiðina í áróðursskini til þess að verja kvótakerfið illræmda: Stjórnvöld ætla að ofveiða skötusel, 80% umfram tillögur Hafró. Það stefnir í áliti Íslands sem ábyrgri fiskveiðiþjóð í hættu, segir LÍÚ!
Farið er að ræða þetta á alþjóða grundvelli og hér eru tvær áhugaverðar slóðir:
http://www.savingseafood.org/columns/the-times-they-are-a-changin-by-nils-stolpe-2.html
http://www.gloucestertimes.com/puopinion/local_story_356094301.html?keyword=topstory
Vísindi og fræði | Breytt 17.3.2010 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)