Kumpánarnir Árni Matt og Össur

Búið er að ráða Árna M. Mathiesen sem aðstoðarframkvæmdastjóra FAO, og heyra fiskveiðar og fiskeldi undir hann. Mun Össur utanríkisráðherra hafa mælt með Árna í stöðuna. Þetta er vægast sagt ógeðfellt en þessir kumpánar voru saman í hrunstjórninni. Ekki einungis það, þeir voru einnig helstu áróðursmeistarar í fiskeldisbólunni, sem sprakk svo með hvelli 1991 og var eins konar forleikur að stóra hruninu núna, hvort tveggja byggt á taumlausri græðgi og pólitískri spillingu.
Auk þess að vera með puttana í fyrirtækjum, sjóðum og sukki stofnuðu þeir félagarnir fiskeldisfélagið Faxalax ásamt Ólafi Skúlasyni á Laxalóni. Þetta var árið 1987.

Ólafur var þá í góðu gengi með sitt fiskeldi, sem byggt var á gömlum merg og rekið með varfærni. Þeir ráku seiðaeldisstöð í Ölfusi og kvíaeldi á regnbogasilungi í Hvalfirði og gekk þokkalega þrátt fyrir ýmis áföll vegna sjávarkulda.

Snillingarnir og sérfræðingarnir Össur og Árni lokkuðu Ólaf í samstarf og hann lagði fram fiskinn sem fór í kvíarnar en Össur og Árni varla meira en "sérþekkingu" eins og algengt var á þessum árum.
Árið 1990 fór fyrirtækið á hausinn, sérfræðingarnir löbbuðu í burt og Ólafur sat uppi með skellinn. Hann missti fyrirtækið í kjölfarið, svo og heimili sitt skömmu síðar og eiginlega allt annað. Hann býr nú á Írlandi.

Á þessum tíma starfaði ég við fiskeldistryggingar, skoðaði stöðvar, mat áættu, gerði upp þrotabú o.fl. Ég var fenginn til að meta eignir í þrotabúi Faxalax í apríl 1990. Aðkoman að fyrirtækinu var ömurleg eins og eftirfarandi glefsur úr skýrslu minni bera með sér: 

FaxakvíarKví nr. 1 
Kafarinn fann 4x1 m gat á botni kvíarinnar og varð ekki var við fisk. Kvíin er að öllum líkindum tóm. Eitt flothylki vantar á kvína. Hoppnet er allt meir og minna rifið og víða eru göt á samskeytum flotkraga og hoppnets. Nótin er orðin gróin. Starfsmenn sögðu að allt hefði virtist með eðlilegum hætti 24/4 þegar slátrað var úr nótinni en þegar reynt var að ná í fisk 26/4 fékkst lítið.


Kví nr. 3
Í kvínni er lax, um 1.5 kg á þyngd og lítur hann þokkalega út. Netið sjálft er gott en skel er að byrja að myndast í því og um þriggja metra breitt belti af meterslöngum þara er í yfirborði nótarinnar. Flothringur er víða rifinn frá og þarfnast viðgerðar. Ekki sáust rifur í yfirborði. Nótin er þung í sjó vegna gróðurs. Eitt flothylki vantar.


Kví nr. 4
Hér eiga að vera um 100 þúsund regnbogasilungar 0.5-1.0 kg. Flothringur er nánast allur laus og nótin hangir uppi á hoppnetinu. Hún er mjög gróin og þung og var við það að súpa í þeirri litlu öldu sem þarna var. Þessi nót hangir á bláþræði og fiskurinn getur sloppið hvenær sem er.

Allar Bridgestone kvíarnar (B1-4) hafa það sameiginlegt að flothringur er víða laus og upphengjur eru víða slitnar. Þetta veldur því að átak er ekki lengur jafnt, strengir myndast í netinu og fjöðrun er orðin lítil og ójöfn. Líklegt er að umrædd rifa stafi af slíku misvægi og eins því hve netið er orðið gamalt.

Ógnvekjandi er að sjá slíkt kæruleysi í viðhaldi á kvíunum með tilliti til þeirra verðmæta og hagsmuna sem eru í húfi. Ekki er hægt að segja að mönnum hafi ekki verið kunnugt um lélegt ástand kvíanna því í skýrslu kafara frá 23. febrúar sl. er ljót lýsing á ástandi þeirra.


Með þessa reynslu að baki má segja að Árni Matt sé vel að starfinu kominn hjá FAO. Össur, sem á þessum árum fór til Sovét að leiðbeina þeim í fiskeldi er líka reynslubolti, þó hefur hann aðeins skipt um kúrs því nú leiðbeinir hann Rússum í nýtingu á jarðvarma.....

Útflutningur á sérþekkingu? 


Bloggfærslur 3. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband