11.4.2009 | 17:59
Smásíldardráp Norðmanna - ofveiðin sem drap síldarstofninn?
Þegar ég var við nám í Noregi 1965 -70 hlustaði ég alltaf á fiskifréttir í útvarpinu. Eins og hér heima áður fyrr, var sagt frá bátum sem komu til löndunar. Yfir vetrartímann voru alltaf fréttir af bátum sem lönduðu svo og svo mörg þúsund hektólítrum (100 kg) af "mossa". Mossa er smásíld, tæplega árs gömul og um 10 cm löng. Hún fór aðallega í bræðslu en var einnig soðin niður í dósir sem "sardínur".
Óhemju mikið var veitt af mossa með allri Noregsströndinni fyrri hluta síðustu aldar. Ársaflinn var tugir þúsunda tonna og 200 þúsund tonn þegar mest var, eða um 2 milljarðar sílda. Eftir 1914 voru reistar margar síldarbræðslur og um svipað leiti kom herpinótin til sögunnar. Þetta leiddi til mikillar aukningar í veiðum á smásíld, en áður en bræðslurnar komu hafði eftirspurn eftir smárri síld verið tiltölulega lítil.
Margir héldu því fram að svona miklar veiðar á smásíld væru ekki gæfulegar, betra væri að lofa henni að stækka og veiða hana seinna. Ef þessu yrði haldið áfram gæti það leitt til eyðingar síldarstofnsins.
Upphófst mikil barátta til þess að fá veiðarnar bannaðar. Ríkisstjórnin og faglegir ráðgjafar hennar stóðu frammi fyrir miklum vanda, því þá var ekki eins mikið um síldina vitað eins og síðar varð. Tveir til þrír milljarðar sílda virtist vera gífurlegt magn en spurningin var sú, hvort þessi afli væri verulegur hluti þess sem í sjónum var og hverjar líkurnar væru á að síldin veiddist þegar hún yrði stærri.
Það eru ekki einungis mennirnir sem veiða síld því hún á fjölmarga óvini í hafinu, fisk, fugl, hval og sel. Spurningin um "gegndarlausar veiðar á smásíld" var miklu flóknari en friðunarsinnar gerðu sér grein fyrir og það tók áratug að koma sér saman um skynsamlega lausn. Óþolinmæðin jókst eftir því em tíminn leið, en umræðan fór nokkuð róast þegar hægt var að sýna fram á að ekki gæti verið að eyðileggja neitt, því alltaf virtist vera nóg af síld til að hrygna og halda við stofninum. Magn smásíldar virtist vera botnlaust. Tjónið, sem friðun smásíldarinnar hefði leitt til var augljóst: Bræðslunar fengju ekki hráefni, sjómenn myndu missa af miklum afla og tekjum, en engin vissa var fyrir aflaaukningu seinna. Málið endaði með eins konar samkomulagi um að draga úr þessum veiðum, samkomulag sem í raun hafði engin áhrif. Í ljósi þeirrar þekkingar sem við nú höfum, skrifar Einar Lea í bók sinni um síldina 1958, má fullyrða að síldarstofnarnir þoli þetta álag sem "smásíldardrápið" er.
Seinni tíma fiskifræðingar íslenskir hafa hins vegar kennt þessari veiði um síldarhrunið 1967-8. Enn hafa menn samt ekki fundið ásættanlega skýringu á því hvers vegna síldin hvarf, en hentugt þykir að kenna offveiði um. Merkilegt hvað síldin hvarf skyndilega því hún þoldi "ofveiðina" um hálfrar aldar skeið.
Stofnstærð Íslandssíldar í 87 ár og spá um þróun stofnsins, rauða línan. Sveiflutíminn, toppur í topp, er 65 ár. Síldarstofninn í hámarki sem stendur, ef fer nú að minnka (Klyasthorin o.fl. 2009).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)