Miskunnsami Samherjinn

"Guggan verður alltaf gul"

Þetta sögðu Samherjamenn þegar þeir "keyptu" Gugguna frá Ísafirði þegar útgerðin var í fjárhagskröggum. Áður en hægt var að snýta sér var það brotið og Guggan hvarf til Þýskalands, DFFU hét fyrirtækið þar. En þeir hafa víðar leikið sama leikinn. Fróðlegt er að skoða hvernig þeir hafa náð öllum úthafsveiðikvóta Breta í Barentshafi með uppkaupum skipa hjá fyrirtækjum í kröggum. Lítum á þessa úttekt sem ég aflaði mér með viðtölum í Skotlandi og af heimasíðu Samherja:


Samherji í Evrópu
Samherji keypti Onward Fishing Co í Aberdeen. Því fyrirtæki gekk vel með sína togara, Dorothhy Gray, Glenrose I og Challanger. Eigandinn, Terry Taylor, var þá uþb. að panta 60 metra langan frystitogara og lagði til að keyptur yrði færeyski togarinn Artic Eagle. Þá hafði norska stjórnin stöðvað fyrirgreiðslu Statoil við Færeyinga og refsað þeim þannig fyrir veiðar þeirra í Smugunni. Togarinn, Artic Eagle, sem keyptur var fyrir lítið, þurfti endurnýjunar og breytinga við fyrir 2 milljónir punda. Hann var endurskírður Glen Eagle. Þetta olli fjárhagserfiðleikum hjá fyrirtækinu.
Páll Sveinsson hjá Icebrit í Grimsby frétti af vandræðum fyrirtækisins og lét Þorstein Má Baldvinsson vita. Samherji keypti fyrirtækið og breytti rekstri Onward Fishing. Togarinn Altjerin var tekinn inn í fyrirtækið og allur kvóti þess í Barentshafi fluttur yfir. Nafni fyrirtækisins var breytt í Artic Highlander. Önnur skip fyrirtækisins voru seld til Noregs til þjónustu við olíuborpalla. Íslenskur skipstjóri var fenginn á Highlander og áhöfnin, 25 manns, var til helminga skosk og íslensk.
Highlander landaði frystum flökum í Aberdeen í 2 ár en var skipt út fyrir Snæfugl sem leigður var frá öðru íslensku útgerðarfyrirtæki og skírður Norma Mary. Þetta var frystitogari, sem veiddi kvóta úr Barentshafi, en áhöfnin var nú að mestu íslensk.
Haraldur Grétarsson stjórnaði fyrirtækinu en fyrrverandi forstjóri gerði lítið annað en að fá bresk yfirvöld til að samþykkja íslensk skjöl og vottorð, og vera milligöngumaður Samherja og stjórnvalda. Hann sá einnig um þýska togara og vinnslustöðvar ásamt Finnboga Baldvinssyni.
ÚA hafði keypt "Boyd Line Management Services Ltd." í Hull haustið 2002. Boyd Line var gamalgróið fyrirtæki, stofnað árið 1936, og hjá því störfuðu 10 starfsmenn í landi og um 60 sjómenn. Velta félagsins var um 950 milljónir króna 2002. Félagið réð yfir um 40% af þorskkvóta Bretlands í Barentshafi, sem var úthlutað af Evrópusambandinu. Aflaheimildir Boyd Line voru við kaupin um 3.900 tonn af þorski, rösk 500 tonn af ýsu auk nokkurra tuga tonna í öðrum tegundum. Boyd Line gerði út tvö sjófrystiskip; Arctic Warrior, skráð í Bretlandi og nýtti kvóta félagsins í Barentshafi, og Arctic Corsair, skráð í Rússlandi og nýtti rússneskar veiðiheimildir. Fyrrnefnda skipið var mannað breskri áhöfn en á Arctic Corsair, sem var gert út í samvinnu við Rússa og undir rússnesku flaggi, voru flestir í áhöfn frá Rússlandi. 
Samherji keypti árið 2004 Boyd Line og togara þeirra Arctic Warrior af Brimi, áður ÚA. Hollenska sjávarútvegsfyrirtækið Parlevliet Van der Plas B.V. tók þátt í þessum kaupum að hálfu. Félag þeirra fékk nafnið UK Fisheries Ltd.
Brim fékk rúm 13,000 fyrir Boyd Line, liðlega 2 milljarða á núvirði. Samherji greiddi með hlutabréfum í Íslandsbanka.
Árið 2006 keypti Samherji J. Marr og þeirra stóru togara, einn frystitogara með heimildir í Barentshafi og þrjá ísfisktogara með aflaheimildir í EU, á Grænlandi og við Ísland.
Þar með var Samherji kominn með allan kvóta Bretlands í Barentshafi í gegn um Onward, Boyd Line og J Marr. Þetta jafngildti um 80% af kvótanum við Ísland.


Samantekt á starfssemi Samherja

• 1994, keyptu frystitogarann Akrabergi í gegn um Framherja í Færeyjum sem var í þriðjungs eigu Samherja.
• 1995, keyptu 49.5% af Deutsche Fishfang Union (DFU).
• 1996, keyptu Onward Fishing með 4 togurum.
• 1996, stofnuðu Seagold í Hull til að selja eigin afurðir, frosinn fisk. Dótturfélag Seagold er Ice Fresh Seafood, Grimsby.
• 1997, Altherjerin endurskráður í Aberdeen til að veiða kvóta Onward. Endurskírður Onward Highlander
• 2000, Snæfugl endurskírður Normay Mary leigður til að koma í stað Altherjerin (Onward Highlander)
• 2001, keyptu fiskvinnslu Hussman and Manh GMBH í Þýskalandi, forstjóri Finnbogi Baldvinsson. 
• 2001, Baldvin Þorsteinsson seldur til DFU.
• 2001 leigan á Snæfugli rann út og honum skilað til Íslands. Í stað hans kom Akureyrin, sem skírð var Norma Mary. Þegar skipið var búið að veiða kvóta Breta í Barentshafi var því flaggað til Íslands og sent á rækjuveiðar við Grænland. Skipinu var svo flaggað aftur til Bretlands til að veiða kvótann í Barentshafinu.
• 2003, keyptu hlut í norska laxeldisfyrirtækinu Fjord Seafood .
• 2003, keyptu hlut í Berg Frost, Færeyjum.
• 2004, keyptu Boyd Line með Arctic Warrior, íslenskir yfirmenn.
• 2006, keyptu J Marr í Hull.
• 2006, keyptu uppsjávartogarann Serene frá Shetlandseyjum.
• 2006, fóru inn í pólska útgerð, Atlaantex, með togarann Wiesbaden í gegn um DFFU, sem keypti 51% í félaginu, til að ná sér í ESB kvóta.
• 2007 keyptu erlenda starfssemi Sjólaskipa hf. og stofnuðu Katla Seafood, sem rekur sjö risatogara og tvö þjónustuskip við Máritaníu og Marokkó.

Samherji ræður nú yfir öllum úthafskvóta Breta, - í boði íslenskra banka. 


Bloggfærslur 16. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband