Stjórnmálamenn í gíslingu Hafró

Þegar ráðgjöfin birtist frá Hafró, um að fara með þorskaflann niður í 130 þús tonn, sagðist sjávarútvegsráðherra ætla að fara mjög gaumgæfilega yfir allar forsendur, hafa þverpólitiskt samráð, hafa samráð við hagsmunaaðila, svo og vísindamenn.
Ekki hefur ráðherrann enn haft þverpólitiskt samráð og mér er ekki kunnugt um að hann hafi haft samband við nokkurn þann í vísindageiranum, sem hefur leyft sér að bera brigðar á forsendur Hafró við "uppbyggingu" þorskstofnsins s.l. 24 ár.

Flestir sem koma að stjórn fiskveiða, ráðherrar og alþingismenn virðast vera sammála Hafró um að skera þurfi niður afla í þeim tilgangi að "byggja upp þorskstofninn. Ég hef hins vegar ekki heyrt haldbæran rökstuðning um að það sé yfirleitt hægt, miðað við ýmsar upplýsingar og gögn sem koma fram í skýrslum Hafró. Ég hef aðeins heyrt talsmenn stofnunarinnar böðlast á fullyrðingum án þess að rökstyðja þær með haldbærum gögnum. Þeir segja t.d að það þurfi að stækka stofninn með því að veiða minna, en jafnframt að þyngd eftir aldri, það sem í daglegu tali er kallað vöxtur, sé í sögulegu lágmarki. Það þýðir væntanlega að fæðuskortur sé ríkjandi hjá þorski. Við slíkar aðstæður er harla ólíklegt að stofninn stækki þó látið sé af veiðum.
Hungraður þorskur vanþrífst og er viðkvæmur fyrir sjúkdómum og mótlæti og étur undan sér til að komast af. Vaxtarstöðnum er einkenni vanveiði en ekki ofveiði og það verður að gera þá lágmarkskröfu til þeirra sem fást við fiskveiðiráðgjöf að þeir þekki mun á einkennum ofveiði og vanveiði. Í ofveiddum stofni eru einstaklingarnir fáir en þeir eru ungir hraðvaxta og holdmiklir vegna þess að fæða er í umframmagni. Þessu er öfugt farið ef um vanveiði er að ræða: Horaðir, gamlir hægvaxta fiskar sem geta líka verið fáir vegna þess að þeir hafa ofnýtt fæðubúrið.
Auk þess að fást við vonlaust verkefni, stækka sveltandi fiskstofn með friðun, segir Hafró að tilgangurinn sé að stækka hrygningarstofninnm því stór stofn gefi af sér meiri nýliðun eða viðkomu.
M.ö.o. er að vandamálið sé að það vanti seiði, en varla getur það verið vænlegt að bæta við einstaklingum í sveltandi stofn? Aukinn seiðafjöldi kemur einungis að gagni sem fóður handa foreldrunum.

R-SSB-55En hvernig stenst fullyrðingin um að stór hrygningarstofn gefi meira af sér en lítill? Á myndunum sem fylgja greininni má sjá samband hrygningarstofns og nýliðunar allt frá árinu 1955. Tölurnar eru sóttar í skýrslu Hafró.
Ekki er unnt að sjá að myndin styðji þessa fullyrðingu, stóri stofninn um miðja sl. öld gaf ekkert meira af sér en minni hrygingarstofn síðar. Fremur er unnt að tala um öfugt samband. Fullyrðing Hafró um að stór hrygningarstofn sé frjósamari en lítill er klárlega röng. En einhvern veginn fá þeir áfram að veifa röngu tré afskiptalaust.


Þegar skoðað er sérstaklega tímabilið 1964-2005 má greinilega sjá öfugt samband, stór hrygningarstofn gefur minna af sér en lítill, auk þess sem stigsmunur verður á nýliðun eftir 1985 eftir að farið er að stjórna veiðum með aflamarki og draga verulega úr sókn - til þess að byggja upp stofninn (!). R-SSB-64
Líklegt er að samdráttur í afla með handafli valdi hungursneyð, sjálfáti og vanmati á stofni.
Sé það rétt er alveg víst að ef farið verður að tillögum um verulegan niðurskurð á þorskafla munum við standa frammi fyrir sama vandamáli að ári: Árangursleysi í "uppbyggingunni" og tillögum um áframhaldandi niðurskurð.
Eina leiðin til að komast út úr ógöngunum er að auka veiðar, - svo mikið að veiðarnar fari að hafa áhrif á stofninn þannig að vöxtur lagist. Verði að þessu sinni farið pínulítið fram úr, kemur Hafró að ári og segir að veitt hafi verið fimm fiskum of mikið. Hvað gera bændur þá?



Bloggfærslur 17. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband