28.9.2015 | 19:04
Veiða og sleppa fiski - ótrúleg græðgisþróun
Þá er liðið enn eitt tímabil með veiða-sleppa. Veiðin var með eindæmum í sumar og hafa opinberir vísindamenn enga skýringu á því hvers vegna veiðin sveiflast svona milli ára, hörmungarveiði í fyrra og metveiði núna. Látum það liggja milli hluta.
En nú er ný staða miðað við það sem áður var: Menn sleppa nær öllum fiski í dýrustu ánum. Þetta skekkir alla tölfræði, enginn veit hve margir veiddust aftur og aftur og sumir veiðimenn bóka fisk sem var á í fimm sekúndur sem veiddan - og slepptan. Þá er mikil freisting fyrir veiðimenn til þess að búa til fiska til að standast samanburð við aðra í hollinu. Þá hefur oft verið ýjað að því að veiðilaeyfasalar prenti fisk. Allt er þetta auðvelt ef menn þurfa ekki að sýna aflann.
Þetta byrjaði allt í Grímsá fyrir nokkrum áratugum þegar amerískum veiðimönnum var uppálagt að sleppa öllum hrygnum í þeim tilgangi að auka seiðaframleðslu árinnar. Í sárabætur fengu þeir heim með sér reyktan lax. Þótti þeim mikið til um þessa rækrun. En þeim var ekki sagt að reykti laxinn hefði verið veiddur í net neðar í vatnakerfinu. Nú fá menn engan reyktan lax lengur í stað þeirra sem sleppt er, fara heim með öngulinn í rassinum eins og sagt var hér áður fyrr.
Stóra stökkið kom svo 1998 þegar veiðimönnum í Vatndsalsá var bannað að drepa lax. Sagt var að svona að gerð myndi verða ánni til góðs og stuðla að betri og jafnari veiði. Reynslan sýndi annað. Veiðin í Vatnsdalsá hélst svipuð og í nágrannaánum, þrátt fyrir að hluti veiðinnar væri tvítalin.
Að ekki verður meiri ræktunarárangur af þessu skýrist af tvennu: Laxinn gengur aðeins einu sinni í ána, einungis um 5% lifa af hrygninguna til þess að ganga í annað sinn og hrygna. Það er því ekki hægt að safna upp fiski milli ára.
Hrygning í flestum ám er yfirleitt yfirdrifin. Á mínum langa ferli við seiðaveiðar hef ég aldrei orðið var við skort á fyrsta árs seiðum, fjöldi þeirra er oftast langt umfram þarfir. Fjöldi stærri seiða er oft hverfandi og ekki í neinu hlutfalli við fjölda fyrsta árs seiða. Vegna mikillar samkeppni eru fyrsta árs seiðin illa undirbúin undir veturinn og afföll því mikil, auk þess sem þau veita eldri seiðum samkeppni. Aukning hrygningarstofns er því oftast til skaða.
Margir veiðimenn fara ekki til veiða þar sem skylt er að sleppa öllum fiski, þeir fara á mis við þá ánægju að matbúa hann handa sér og sínum, nokkuð sem þeir telja vera endapunktinn á góðri veiðiferð.
Þá þykir mönnum það ekki heyra undir eðlilega veiðmennsku og umgengni við náttúruna að veiða þreyta og landa fiski til þess eins að henda honum aftur í ána.
Þá má minna á að í lögum um dýravernd segir:
"Skylt er að fara vel með öll dýr. Óheimilt er að hrekkja dýr eða meiða. Forðast skal að ofbjóða kröftum þeirra og þoli".
Í lögum um dýraveiðar stendur:
"Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa dýr sem þeir hafa veitt áverka".
Berum virðingu fyrir bráðinni og náttúrunni og göngum til veiða með því hugarfari að við séum að veiða okkur til matar og huggulegheita. Fátt er eins skemmtilegt og að halda veislu með sjálfs aflaðs matar.
Vísindi og fræði | Breytt 6.8.2024 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.9.2015 | 18:59
Þöggunin um kvótakerfið
Lengi hefur verið áberandi hve flestir fjölmiðlamenn eru iðnir við að draga taum kvótakerfisins, velja sér viðmælendur og hafna öðrum í þeim tilgangi.
Fyrr í vor hlustaði ég á Sprengisand þar sem Sigurjón Már Egilsson ræddi við tvo þingmenn um sjávarútvegsmál og hafði sér til fulltingis Kolbein Árnason framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ). Því að fá Kolbein en ekki einhvern fórnarlamba kerfisins?
SME hefur alla tíð dregið taum kvótakerfisins. Hann tók við ritstjórn sjómannablaðsins Víkings, eftir að Sigurjóni Valdemarssyni ritstjóra og mér sem fiskifræðiskríbent var bolað út árið 1993. Þetta var að sögn gert í nafni hagræðingar. Við höfðum verið með mjög sterka gagnrýni á Hafró og kvótakerfið í um 4 ár og faðir Halldórs Ásgrímssonar og fleiri höfðu sagt um áskriftinni. Á þessum tíma var Guðjón Arnar Kristjánson forseti FFSÍ, sem gaf út Sjómannablaðið Víking.
Skrif okkar ullu miklu fjaðrafoki í herbúðum Hafró en þeir biðu samt alltaf spenntir eftir blaðinu: Á bókasafninu þar var miði sem sagði að bannað væri að fara með "Víkinginn" út af safninu en mönnum bent á að ljósrita. Eftir að SME tók við ritstjórn "Víkingsins" urðu sjómannabrandarar og annað léttmeti ráðandi. Þöggunin byrja snemma og stendur enn.
Hér er ein af síðustu greinunum sem við Sigurjón skrifuðum saman í Víkinginn árið 1992, ekki skafið af því, en greinin gæti hafa verið skrifuð í gær.
Nú, aldarfjórðungi síðar, hjakka Hafró og stjórnvöld í sama farinu og aflinn er enn lítill eftir margar dýfur. Þorskaflinn 1992 var 270 þús. tonn, en stefnir í að vera 240 þús. tonn á þessu ári. Á ekkert að fara að læra af reynslunni?