Grænlendingar og makríllinn. - LÍÚ stjórnar utanríkismálunum!

Alveg var ég gáttaður um daginn þegar Íslendingar neituðu Grænlensku skipi að landa hér makríl, sem veiddur var í grænlenskri lögsögu. - Ekki batnaði það þegar Steingrímur sjávarútvegsráðherra lét kalla heim skip í eigu Brims, sem voru í rannsóknaveiðum fyrir Gænlendinga. 

Ég hélt í minni einfeldni að það væri styrkur fyrir okkur Íslendinga að makríllinn væri kominn til Grænlands, fleiri rök fyrir því að makríllinn væri búinn að færa sig hingað austur og væri ekki lengur "hrein eign" ESB og Norðmanna. Ég fékk þetta ekki til að koma heim og saman, hvað var eiginlega að Steingrími? Skýringin birtist í Fréttablaðinu 13. ágúst sl. þar sem sagði:

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdarstjóri LÍÚ, segir að eftir því sem Grænlendingar afli sér meiri veiðireynslu á makríl verði samningsstaða íslendinga erfiðari þegar kemur að því að semja um makrílveiðar úr sameiginlegum stofni. Afstaðan byggist því eingöngu á að tryggja hagsmuni Íslands.

Þar höfum við það:  "Afstaðan byggist því eingöngu á að tryggja hagsmuni Íslands", sagði LÍÚ! Þeir ráða, eða virðast segja Steingrími hvað hann á að gera. Ekki þarf lengur að velkjast í vafa um hver sé handbendi hvers.

Þetta rifjar upp að þegar ég var við rækjurannsóknir á Flæmska hattinum 1995 um borð í Dalborgu EA, fór ég fram á, eftir að hafa rannsakað rækjuna á Hattinum í 4 vikur, að fá sem rannsóknaskip að taka nokkur höl á "Nefinu" á Miklabanka, en það er utan landhelgi Kanada. Tilgangurinn var að kanna hvort samstofna rækja væri í næsta nágrenni. Snorri heitinn Snorrason útgerðarmaður rak erindið við sjávarútvegsráðuneytið en Þorsteinn Pálsson var þá ráðherra. Eftir 10 daga þref fengum við neitun, og ég frétti síðar að eftir skeytasendingar milli kanadísku og íslensku Hafró, hefðu "vísindamennirnir" komist að því að þarna væri engin rækja!

Ári síðar var ég þarna og þá birtist færeyskur togari, Háifossur, með leyfi til tilraunaveiða á svæðinu, sem kallað er L3. Er ekki að orðlengja það að hann fann þar mikla rækju og Færeyingar fengu að launum leyfi til rækjuveiða þarna í mörg ár. - Þar misstum við af feitum bita.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband