30.8.2011 | 20:42
Umpólun Össurar í fiskveiðimálum
Össur ráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið í dag og í eftirfarandi hluta greinarinnar fjallar hann um sjávarútveg:
"Innistæða uppsveiflu"
"Ríkisstjórnin stóðst þá freistingu sem kom fram í frýjunarorðum stjórnarandstöðunnar um að taka meira út úr innistæðu okkar í fiskistofnum í hafinu. Árangurinn er sá að næstum allar tegundir eru nú á uppleið. Varanleg aukning í þorskkvóta svo nemur þúsundum tonna mun koma fram á næsta fiskveiðiári, og fyrirsjáanlegt að aukningin mun halda áfram á næstu árum. Þegar er búið að slá undir 10 þúsund tonna kvóta í karfa og auka strandveiðar. Viðbót sem nemur heilli loðnuvertíð virðist í sjónmáli."
Hann virðist heldur betur hafa snúið við blaðinu frá árinu 2005 en þá sagði hann í þingræðu:
"Það eru ekki mörg ár síðan, ætli það sé ekki áratugur, að ég hélt hér miklar ræður um gagnsemi þessarar aðferðar við að vernda þorskinn í hafinu. Ég taldi þá að þessi vísindi væru miklu nákvæmari en reynslan hefur svo sýnt. Við höfum hins vegar horft upp á það á síðustu árum að stöðugt eru að koma fram nýjar upplýsingar sem benda til þess að þær aðferðir sem við höfum notað séu ekki nægilega traustar. Við höfum horft framan í ár þar sem tapast hefur nánast helmingurinn af áætluðum stofni í hafinu. Við höfum séð fram á það að upplýsingar sem hafa komið fram úr t.d. veiðiröllum hafa ekki reynst réttar. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég skrifaði á árum fyrr grein í Morgunblaðið og benti á að ósamræmi væri milli þess sem Hafrannsóknastofnun gaf út í lok þess árs sem æskilegt aflamark og þeirrar niðurstöðu sem kom fram í rallinu. Ég fékk aldrei skýringar á þessu misræmi, mér var einungis sagt að ákveðin aðlögun hefði átt sér stað."
Og áfram hélt hann:
"Þetta er ekki traustvekjandi og það er heldur ekki traustvekjandi þegar Hafrannsóknastofnunin slær um sig þéttan varnarmúr og hleypir ekki að þeim aðilum sem gagnrýna kerfið. Ef menn geta fundið eitthvað að þeim aðferðum sem Hafró beitir á það að koma fram. Það hlýtur að vera í þágu vísindanna og þágu greinarinnar að einmitt gagnrýnendunum sé lyft. Við höfum hins vegar séð það aftur og aftur að þeim er kerfisbundið bægt frá."
"Ég er þeirrar skoðunar að innan Hafrannsóknastofnunarinnar ríki kreddur. Alls staðar skapast kreddubundið andrúmsloft þar sem frjálsir vindar rökræðu og gagnrýni fá ekki að leika um. Ég er þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti verði að skapa umhverfi þar sem samkeppni hugmynda á þessu sviði ríkir. Ég er þeirrar skoðunar að það væri ákaflega farsælt í fyrsta lagi að brjóta upp þetta kerfi sem við höfum í dag, þ.e. að á sömu hendi í sama ráðuneyti séu bæði eftirlit og rannsóknir með auðlindinni og hins vegar ákvörðunartaka um hversu mikið megi taka af henni. Þetta eru andstæðir hagsmunir sem vegast á og það er ekki farsælt."
Hann sagði líka:
"Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið mjög óheillavænlegt hvað þessi umræða er lokuð innan veggja Hafró. Við ræddum það fyrr í dag í þessari umræðu hvernig maður hefur stundum á tilfinningunni að öðrum og gagnrýnni skoðunum sé skipulega haldið frá. Annað birtingarform á þessari skoðanaeinokun Hafrannsóknastofnunar birtist í því að við þingmenn getum ekkert lengur hringt í fiskifræðinga og fengið upplýsingar. Við fáum bara upplýsingar sem við þurfum á að halda í gegnum forstjóra stofnunarinnar. Þannig er verið að straumlínulaga skoðanir Hafró og koma þeim á framfæri bara í gegnum einn munn, einn farveg, og fyrir vikið verður þetta ákaflega einsleitt. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi hömluleysi hinnar frjálsu hugsunar sem ríkir við háskóla og þar sem samkeppni hugmyndanna er við lýði til þess að brjótast út úr þessum farvegi. Eitt örstutt dæmi: Hv. þingmaður Jóhann Ársælsson nefndi hér 25% aflaregluna. Enginn maður á Íslandi getur sýnt fram á hvernig hún var fundin. Ég hef farið í gegnum það. Ég barðist í gegnum það og skildi ekki. Ég fór og spurði sérfræðingana og þeir sýndu mér útreikninga sem leiddu að annarri niðurstöðu."
Nú virðist hann vera búinn að gleyma öllu. Össur skildi ekki aflaregluna þá, nú þegar hún er komin niður í 20% segir hann ekkert, kannski er hann farinn að skilja hana núna.
Ég sendi honum póst í ársbyrjun 2009 og minnti hann á þessi ummæli. Hann svaraði að bragði:
"Ef ég verð í vinstri stjórn e. kosningar þá muntu sjá vöðva urriðakallsins hnyklast - ég er komið með fullkomið ógeð á kvótakerfinu. Það verður partur af stjórnarmyndunarviðræðum - ef ég kemst nógu ofarlega aftur til að verða í þeim. -Taktu eftir fylgi VG - það liggur allt á móti kvótakerfinu svo Grímur ætti að dansa með".
Ekki veit ég hver bauð hverjum upp í dans, en víst er að hann var aldrei stiginn. Hver skyldi hafa stöðvað ballið, forritað Össur og umpólað honum?
29.8.2011 | 18:35
Rækjan að sækja í gamla horfið, stofninn að hverfa?
Einu sinni var ekki veidd rækja í úthafinu, einungis innfjarða, í Ísafjarðardjúpi Arnarfirði og Öxarfirði.
Það var fyrir elju eins manns að úthafsrækjuveiðin var "búin til". Snorri heitinn Snorrason skipstjóri á Dalvík var upphafsmaðurinn og þó illa gengi í fyrstu gafst hann ekki upp. Það tók tæp 30 ár að gera þessar veiðar arðbærar.
Ég sagði "búa til", því svo virðist að aukin sókn í fisk- eða rækjustofna hafi þau áhrif að stofnarnir skili meiri uppskeru. Meðan sókn var óheft á Íslandsmiðum veiddust 4-500 þús. tonn af þorski áratugum saman. Þegar farið var að hefta veiðar til að koma í veg fyrir ofveiði minnkaði aflinn jafnt og þétt og er nú í sögulegu lágmarki. Þetta er uppskera friðunarinnar.
Talandi um rækju er fróðlegt að líta til rækjuveiðanna á Flæmska Hattinum. Þær hófust 1993 og fóru hrað vaxandi. Árið 1995 veiddust 25 þús. tonn og lagt var til að stöðva veiðar til að vernda stofninn. Árið eftir sóttu Íslendingar stíft til að afla sér kvótareynslu Alltaf var lagt til veiðibann en það var hundsað og aflinn var yfirleitt 40-50 þús tonn.
Þegar rækjuverð lækkaði og olíuverð hækkaði dró úr sókn og þar með afla. Nú er svo komið að afli er lélegur og sóknin nær engin.
Fróðlegt er að lesa skýringar Hafró á minnkandi stofni úthafsrækju við Ísland:
"Ýmsar ástæður geta verið fyrir versnandi ástandi rækjustofnsins, m.a. aukin þorskgengd inn á svæðið sem veldur auknu afráni á rækju, einkum ungrækju. Einnig er hugsanlegt að auknar rækjuveiðar á síðustu tveimur fiskveiðiárum hafi haft þau áhrif að rækjan verði aðgengilegri fyrir þorskinn sem leiði til aukins afráns á rækju. Aðrir þættir, s.s. hlýnun sjávar sem flýtir tíma klaks sem hittir þá síður á hámark þörungablómans hefur líka mikil áhrif á nýliðun."
Ekki fæ ég skilið hvernig rækjuveiðar verði til þess að rækjan verði "aðgengilegri fyrir þorskinn", en etv. skilja þeir það snillingarnir á Hafró. Og, auknar rækjuveiðar?? Rækjan var tekin úr kvóta í fyrra en hafa rækjuveiðar aukist? Mér er það til efs.
Þá er athyglisvert að þeir gera því skóna að át þorsks og gráðlúðu sé orsakavaldur minnkunar rækjustofnsins. Samt er ekki orð um hvað þessar tegundir voru að éta á rækjuslóðinni, kíktu þeir ekki í magann á þessum fiskum? Ekki er að sjá að þeir hafi gert það, þeim finnst sennilega betra að spinna upp skýringarnar. Eftir stendur að sóknarsamdráttur í rækjuveiðum hefur leitt til minnkandi stofns. - Ætla menn aldrei að læra?
![]() |
Þorskurinn hámar í sig rækju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 5.2.2016 kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)