Gott hjá Færeyingunum, gefa skít í valdaklíkurnar og taka rökrétta ákvörðun. En íslenskur, bráðum valdlaus, ráðherra með sægreifana á bakinu styður ekki Færeyinga! Ætli hann hafi áhyggjur af því að prísinn lækki - hjá sægreifunum?
Í febrúar í fyrra skrifaði Steingrímur til erlendra fjölmiða að hann teldi makrílinn ofveiddan!
Ég var á fyrirlestri um daginn: Á fundinum flutti erindi norskur fiskifræðingur, Jens Christian Holst. Hann kemur frá norsku hafrannsóknastofnunni. Hann hefur skoðað uppsjávarvistkerfi Norður Atlantshafsins og fiskistofna þar, kolmunna, síld, makríl og lax.
Niðurstaða hans var að uppsjávarfiskarnir, síld, makríll og kolmunni, ofbeittu norska hafið. Síldin væri nú á hraðari niðurleið en þegar stofninn minnkaði á sjötta áratugnum niður í næstum ekki neitt. Hún er að drepast úr hungri. Hans skoðun var að það ætti að veiða 10 miljónir tonna af þessum fiskum, - strax.
Síldin, sem fyndist úti fyrir norsku ströndinni á vorin væri mjög horuð, aðeins þriðjungur af eðlilegri þyngd m.v. lengd, og hefði litla lífsmöguleika enda minnkaði stofninn hratt. Fæðuskorturinn veldur því að ungviði kemst ekki upp s.k. nýliðunarbrestur. Honum er reyndar kennt um minnkun stofnsins, sem sýnir hvað menn hugsa stutt - og ofveiðin alltaf handan við hornið. Jens Christian sagði að einu réttu viðbrögðin við átuskortinum væri að veiða meira og vitnaði bændur og góða búskaparhætti. - Þetta hljómaði sem hin ljúfasta músík í mínum eyrum.
Ég nefndi þennan átuskort í N Atlantshafi í pistli í fyrra þar, sem ég hélt því fram að mælingar á makrílstofninum væru hrein vitleysa og menn hefðu litla hugmynd um stærð makrílstofnsins.
Áfram Færeyingar!
![]() |
Færeyingar stórauka síldarkvóta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.3.2013 | 20:21
Hræðslan við ofveiðina - 3. Trollveiðar
Andstaða á togveiðum kemur einnig frá smábátasjómönnum, sem telja sig nota "vistvæn" veiðarfæri. Þetta er löstur sjómanna, að vera að hnýta í önnur veiðarfæri en þeir nota sjálfir.
Haldið er fram að botnvarpan og bobbingarnir eyðileggi kóralla, sem veita eigi fiskinum skjól. Þetta með skjólið hefur lítið að segja fyrir fiskinn og benda má á að í Barentshafinu er eingöngu leirbotn þar sem ekkert skjól er að hafa en þetta er ein besta fiskislóð heims. Megnið af aflanum er tekinn í troll, sérstaklega Rússamegin, og hefir verið svo í meira en 100 ár.
Ekki er vafi á að kórallar skemmist þar sem togað er en yfirleitt er lítið togað á svoleiðis botni. Nýlega voru kórallasvæði í Eystrasalti undan ströndum Danmerkur kortlögð og gefin var út reglugerð, sem bannaði togveiðar á kórallasvæðunum. Þegar farið var að skoða togslóðir dönsku skipanna og setja þær út í kort, kom í ljós að þeir höfðu aldrei togað á kórallasvæðunum, það var einfaldlega ekki hægt. Það hefði nú átt að byrja á að athuga það.
Áhyggjur eru af því að að sífelld ánauð botnvörpunnar fari illa með botninn, drepi gróður og dýr og skemmi hann. Þegar menn líta niður í sjóinn frá ströndinni sjá þeir þang og þara, sem kemur upp úr á fjörunni. Því er auðvelt að telja fólki trú um að botnvarpan drepi þennan þara og aðrar plöntur þar sem hún fer yfir. Staðreyndin er hins vegar sú að rótfastar plöntur geta ekki lifað neðar en á 20 m dýpi frá stórstraumsfjöru. Ástæðan er sú að stönglarnir þola ekki þrýstinginn. Einu plönturnar eru þörungar, kransþörungar t.d.

Trollveiðar hafa verið stundaðar við Færeyjar í meira en 100 ár. Nú er bæði veitt með hleratrollum, hinar hefðbundnu trollveiðar, þar sem hlerar eru notaðir til a glenna í sundur trollið. Algengara er að tveir togarar eru um sama troll án þess að nota hlera, svokallaðar tvílembingsveiðar. Uppistaðan í tvílembingsveiðunum er ufsi, um 80%, restin þorskur, ýsa og annað.
Myndin hér til hliðar sýnir togslóðir Betatogaranna árið 2006.
Reiknað hefur verið út að miðað við yfirferð trollsins og stærð fiskimiðanna að trollið fari sex sinnum yfir hvern einasta ferþumlung á ári hverju. Skýrslur sýna að aflinn hefur verið svipaður a.m.k. í 25, þann tíma, sem gögn um þessar veiðar ná. Yfirferðina yfir botninn má bera saman við garðyrkju uppi á landi þar sem akrar eru plægðir á hverju ári, og eru þá höggnir í sundur ánamaðkar og önnur dýr, en allt er þetta talið eðlilegt og enginn amast við því. - En í sjónum! Þar er allt í voða.Þessi neðansjáarmynd af trolli. var gerð í minningu Guðmundar heitins Kjærnisted skipstjóra. Ég þekkti Guðmund vel, sigldi með honum lengi og hitti hann oft í Laugunum eftir að hann var kominn í land. Hann sagði mér einu sinni að ef hann hefði vitað hvernig við myndum nýta fiskimiðin eftir að hafa unnið þorskastríðin, þá hefði hann ekki lagt sig svona mikið fram og átti hann þar við kvótakerfið, þá mismunun, sem það hefði valdið og hvernig fiskveiði "stjórnunin" undir vísindalegu eftirlit hefði skilað sífellt minni afla á land.
Myndinni er ætlað að sýna skaðsemi trollveiða. Trollið þyrlar upp ryki, sem var vitað og er eðlilegt: Sjá má hvernig það smalar fiskinum en lítið sem ekkert fer inn, megnið fer undir fótreipið milli bobbingana. Rannsóknir Hafró, af öllum, sýna að megnið af smáfiskinum , 50% af 55 cm þorski og styttri, fer undir trollið og sleppur. Lítil hætta er á ofveiði með svona veiðarfæri en almenningi er talin trú um að þetta sé "ryksuga" sem eiri engu. Þá er það vitleysa, sem fram kemur í myndinni að tálknin fyllist af drullu og drepi fiskinn. Þetta er ekki rétt, það kemur aldrei upp fiskur úr trolli með tálknin full af sandi. Tálknin hleypa öllum smáögnum í gegn um sig, annað fer í magann, áta t.d.
Algengur misskilningur er að toghlerar í dag séu miklu þyngri en þeir sem notaðir voru í gamla daga og því plægi þeir upp botninn. Hlerinn hefur það hlutverk að halda trollinu opnu. Því stærra sem trollið er þeim mun þyngri þurfa hlerarnir að vera. Þetta er vegna þess að meiri kraft þarf til að draga stór troll og vegna þess að vírarnir liggja á ská upp í yfirborðið þurfa hlerarnir að vera þyngri til að halda öllu dótinu við botninn. Þeir mega ekki dragast of mikið í botninum, það kostar meiri orku. Neðan á hlerunum eru svokallaðir skór til að minnka slit, sem verður við að nuddast við botninn. Það er verk skipstjórans að athuga slitið á skónum, ef þeir eru ryðgaðir þýðir það að trollið sé ekki í botni, ef þeir eru passlega fægðir, sitja þeir rétt og trollið einnig, en það sést nánar á "rossunum" fremstu kúlunum á lengjunni, sem er undir vörpunni og strýkst við botninn.
Niðurstaða mín er sú að trollið sé ekki það skaðræðisverkfæri sem margir telja. En þegar menn skortir önnur rök til að skýra minnkandi fiskveiðar er trollinu og öðrum skaðræðisverkfærum kennt um. Litið er hins vegar fram hjá þeirri staðreynd að dregið hefur verið úr veiðum með lagaboðum, í þeim tilgangi að "byggja upp" fiskstofna, án þess að taka tillit til þess að fæðuframboð er lykilatriði í framgangi fiskstofna.
Friðun, án þess að taka tillit til þessa er líffræðilega röng og við erum að uppskera minni afla þess vegna, - Ekki vegna "skaðsemi" veiðarfæra heldur vegna vankunnáttu í fiskilíffræði.