Er fiskurinn í sjónum að ganga til þurrðar vegna ofveiði?

Þann 19. janúar s.l. birtist grein í The Guardian þar sem því var haldið fram að vegna ofveiði væri fiskafli heimsins að minnka þrisvar sinnum hraðar en áður hefði verið talið. Því til staðfestingar var vitnað í nýbirta rannsókn í Nature Communication.

Höfundar eru Daniel Pauly og Dirc Zeller og rannsóknin var styrkt af Pew Charitable Trust sem styrkir ýmis samtök sem beita sér gegn fiskveiðum, m.a. Greenpeace og WWF. Pauli er löngu dottinn úr stól sínum sem trúverðugur fiskifræðingur vegna fjárhagslegra tengsla sinna við PEW. Tilkynningar um svona greinar gegn fiskveiðum eru gjarnan sendar á flesta fjölmiðla, sem birta "vísindin" gagnrýnislaust.


Moggi 21 jan bls46Morgunblaðið var einn þeirra sem gleypti beituna hráa, birti hálfsíðu frétt 21. janúar s.l. á bls 46 þar sem sagði í undirfyrirsögn:".. afli minnkar hraðar en opinberar tölur segja til um. Bendir til að ástand fiskstofna sé verra en áður var talið".

Í stuttu máli gekk rannsókn Pauly og félaga út á að sýna fram á að tölur FAO um heimsafla væru of lágar, aflinn væri miklu meiri en þar kæmi fram. Þá hefði hann fallið hraðar en fram kæmi hjá FAO. Þetta gerðu þeir með því að bæta við afla úr stöðuvötnum, frumbyggja- og sportveiðum, ólöglegum veiðum og brottkasti. Í þessu skyni notuðu þeir m.a. innkaupanótur frá hótelum og tölur um fiskneyslu í ýmsum löndum. Tölur þær sem FAO vinnur með eru að heimsaflinn 1996 hafi verið 86 milljónir tonna en hafi síðan þá minnkað í 80 milljónir tonna. Skýrsluhöfundar finna það síðan út með ofangreindum pælingum að aflinn hafi verið rúmum 40 milljón tonnum meiri og minnkað hraðar en FAO hefur gert ráð fyrir. Höfundarnir hafa miklar áhyggjur af því að heimsaflinn sé meiri en áður hafði verið talið.

Erfitt að skilja hvers vegna það ættu að vera slæmar fréttir. Aðalatriðið er að heimsaflinn hefur haldist svipaður sl. 30 ár eins og sjá má af meðfylgjandi mynd, en þar má sjá tölur frá FAO , neðri línan, og nýju áætlunina, efri línan.

Clipboard01Ástæða þess að hann hefur minnkað eilítið undanfarið, ef það má þá kalla þetta minnkun, telja höfundar að megi rekja til ofveiði. Það er nokkuð frjálsleg túlkun í ljósi þess að sífellt er verið að þrengja að fiskimönnum og fiskveiðum. Vegna áróðurs um meinta ofveiði hefur sífellt verið að draga úr veiðum á stórum hafsvæðum. Má þar m.a. nefna alla lögsögu ESB þar sem heilu flotarnir hafa verið þurrkaðir út "til að koma í veg fyrir ofveiði". Þó Íslandsmið séu full af þorski er veiðiálagið haft lágt, í "varúðarskyni", og er þar komin skýringin á að þorskaflinn er nú einungis tæpur helmingur af því sem hann var áratugum saman í frjálsri sókn.

Pew er skuggasjóður sem hefur styrkt prívatsamtök, stofnað og kostað rannsóknastofnanir sem vinna gegn fiskveiðum. Stöðugt er talað um ofveiði og leitina að síðasta þorskinum. Gefnar eru út skýrslur þar sem talað er um verndun hafsins, sjálfbærni, vistvænar veiðar og nauðsyn þess að sporna við ofveiði. Pew hefur sett á stofn rannsóknastofnanir austan hafs og vestan, en yfirleitt halda þeir sig í bakgrunninum sjálfir. Einnig hafa þeir tök á mörgum fjölmiðlum í gegn um fjárstuðning, Le Monde og The Guardian t.d. Hér er ágætis úttekt á PEW skrifuð af Menakhem Ben-Yami, Ísraelsmanni sem vann lengi hjá FAO.

Heimsendaspárnar tengdar fiskveiðum koma með reglulegu millibili. Og alltaf láta fjölmiðlar plata sig, enda er það tilgangur áróðursaflanna. Fjölmiðlar mættu alveg fara að standa sig betur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband