Væntanlegar breytingar á fiskveiðistefnu ESB

Komið er út fréttabréf frá ESB, þar sem fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistefnunni, CFP, eru útskýrðar. Breytingarnar fela í sér að taka upp framseljanlegt kvótakerfi og innleiða bann við brottkasti (!).

Þeir telja að flotarnir séu enn of stórir, að enn þurfi að skera þá niður til að forðast ofveiði. Þetta er nokkuð sérstakt þar sem td. botnfiskfloti Breta hefur minnkað um 70-80% sl. 10 ár og sóknin í Norðursjó hafi dregist gríðarlega saman. Samt er enn ofveiði.

Þetta er nokkuð klassiskt, menn halda að öll vandamál megi leysa með samdrætti í veiðum. Búið er að reyna þetta hér heima í 30 ár með skelfilegum árangri. Enn vilja menn þó bæta um betur; alfriða svartfugl og margir halda að galdurinn sé að friða loðnu.
ND Haddock

Bretar eru með framseljanlega kvóta en þegar (bolfisk eða humar) kvótar losna eru þeir keyptir upp af ríku uppsjávarútgerðunum, jafnvel þó þeir veiði ekki þorsk og ýsu. Þeir eru að fjárfesta í kvótum, engar hefðbundnar botnfiskútgerðir hafa neinn séns til að bjóða á mót þeim, segja mér vinir mínir í Skotlandi. Þetta er skuggaleg þróun, sem við köllum yfir okkur með inngöngu í ESB. Greinilegt er af fréttabréfinu að ekki er gert ráð fyrir neinum undanþágum til einstakra ríkja. Það verður eitt fyrir alla.

Ég hef rannsakað fisk úr Norðursjó en þar er smáfiskur yfirgnæfandi. Þetta er ekki ungviði heldur fullorðinn (kynþroska) hægvaxta smáfiskur. Þorskurinn fer ekki að vaxa fyrr en hann gerist fiskæta, éta ýsu eða bræður sína.NS Cod

 

Efri myndin sýnir kynþroska 5 ára ýsa í smásíldarstærð, sú neðri horaðan þorsk um 35 sm að lengd, enn að keppa við ýsuna um fæði. 

Lítið gagn í að friða svona fisk.
 


1000 störf, lægra fiskverð til neytenda og "penger i lommen" : Hafnar Steingrímur tilboðinu?

Samtök íslenskra fiskimanna sendu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu tilboð upp á ríflega einn og hálfan milljarð króna fyrir aflaheimildir á þorski, ýsu og ufsa.

Jón Bjarnason hafnaði þessu tilboði á síðasta degi sínum í embætti. Nú vill sambandið freista þess að nýr ráðherra sjái málið í öðru ljósi og sendi aftur inn sama tilboðið.

„Gangi ríkið að þessu tilboði má búast við því að um þúsund ný störf verði til og það kostar ríkið ekki neitt, heldur þvert á móti fær ríkið greitt fyrir að skapa þessi störf. Ég veit ekki til þess að þessari ríkisstjórn hafi verið boðið slíkt tilboð áður,“ sagði Jón Gunnar Björgvinsson formaður Samtaka íslenskra fiskimanna.

Hann telur einnig miklar líkur á að fiskverð til íslenskra neytenda lækki með auknu framboði á innlendum fiskmörkuðum.

Þetta er úr frétt Rúv, sem  fór í loftið fyrsta frétt fimmtudaginn 19. janúar. Merkilegt nokk var hún aldrei lesin aftur, en venjulega er athyglisverðum fréttum gerð betri skil síðar, í sex fréttum útvarps eða fréttum sjónvarps, því fjögur fréttir fara framhjá mörgum.

Mig grunar að þarna hafi verið kippt í spotta, málið væri óþægilegt fyrir "eigendur" kvótans. 

Bláa höndin? 
 


Aukinn þorskkvóti í vor?

Steingrímur fullyrðir að þorskkvótinn verði aukinn í vor. Annað hvort trúir hann blint á það sem Hafró sagði sl. vor eða hann hefur nýjar upplýsingar. Ekki var farið í stofnrannsókn í haust vegna verkfalls og engar opinberar upplýsingar hafa komið um ástand stofnsins. Ég vona að Steingrími bregði ekki í vor, ef í ljós kemur að stofninn hafi ekki aukist.

4+ 

Ég skrifaði um þetta í maí í fyrra og sagði þá: "Það eru líkur á lækkun þorskvísitölu vegna þess að hlutfall stærri og eldri fisks er hátt og hann virðist þrífast vel á yngri bræðrum sínum, sem fer fækkandi og eru illa haldnir. Þar sem fiskur hefur ekki eilíft líf, mun stærri fiski fara fækkandi. Enn er beðið eftir nýliðun, sem lætur standa á sér vegna hungurs hjá ungfiski, sem eins og áður sagði, fer aðallega í fóður hjá þeim stærri".

Myndin sýnir hvernig vísitalan rís alltaf í 4 ár en fellur svo. Er komið að því? 


mbl.is 20-25 milljarða loðnuvertíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir nýrri þekkingu í náttúrufræði!

Það á ekki af okkur að ganga Íslendingum. Búið er að skammta þorskafla í tæp 30 ár til í von um það að stofninn stækki. Árangurinn er minni en enginn, minnkandi stofn og horaður fiskur. Nú á að beita sömu aðferð á sveltandi fugla:

"Starfshópur, sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í september um verndun og endurreisn svartfuglastofna, leggur m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin", segir í fréttinni.

"Starfshópurinn telur helstu orsakir hnignunar stofnanna vera fæðuskort en telur að tímabundið bann við veiðum og nýtingu muni flýta fyrir endurreisn þeirra".

Þessar tillögur ganga í berhögg við alla núverandi þekkingu og reynslu í vistfræði og almennum búskap. Ef búfénaður og önnur dýr svelta er einungis hægt að laga ástand þeirra á tvennan hátt. Annað hvort með því að auka fóðurgjöf eða fækka á fóðrum.

Vitlausasta sem hægt er að gera er að friða sveltandi dýrastofn, fugl eða fisk, í þeirri von að þeir braggist.

Sennilega myndi ekki hjálpa að slátra fuglum kerfisbundið til að bæta ástandið því fiskurinn hefur meiri áhrif á sandsílið en fuglinn. En gagnslaust og ástæðulaust er að friða fugla, sem er að fækka "af sjálfu sér"

Hvernig væri að friða fæðu fuglana, sandsílið, frá áti þorsksins með því að veiða meiri þorsk?

Það verður ekki gert, því eins og amma skáldsins sagði: Heimskan er eins og eilífðin, hún á sér engan endi.

Meira um fugl, þorsk, sandsíli og loðnu.


mbl.is Vilja friða 5 tegundir af svartfugli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband