Umsögn um strandveiðifrumvarpið

Við Sigurjón Þórðarson vorum kallaðir fyrir atvinnumálanefnd í tilefni breytinga á lögum um strandveiðar. Í framhaldinu sendum við inn eftirfarandi umsögn til nefndarinnar. Í henni var ekki verið að tala um smáatriði eins og fjölda daga, aflahámark, svæðaskiptingu eða hvort einhver fengi meira en annar. Í stað þess voru færð rök fyrir því að gefa ætti veiðar smábáta frjálsar, það væri ekki hættulegt heldur beinlínis nauðsynlegt:

Það okkar skoðun að það þurfi að auka verulega bolfiskveiðar á grunnslóð og sérstaklega innfjarða, til þess að auka framleiðslugetu nytjastofna landsins. Auk þess myndi aukinn afli vænka hag sjávarbyggðanna.

Nýlega birtist skýrsla frá Hafró um að rækjustofnar innfjarða hefðu gefið eftir samfara fjölgun þorsks og ýsu, en mjög hefur dregið úr sókn á grunnslóð, m.a.vegna þeirra takmarkana sem kvótakerfið setur á veiðar smábáta. Segir þar að áberandi breytingar hafi orðið í lífríkinu í sex fjörðum og flóum á Vestfjörðum og Norðurlandi á tveimur áratugum frá 1995. Rækja hafi átt í vök að verjast vegna vaxandi afráns þorsks og ýsu sem hafi endað með því að rækjustofnarnir inni á þessum fjörðum hafi hrunið. Í Ísafjarðardjúpi gat rækjuafli verið milli tvö og þrjú þúsund tonnum á vertíð fram að aldamótum, en í vetur er heimilt að veiða þar 456 tonn. Þar sem ástandið er verst hafa engar veiðar verið leyfðar frá aldamótum. Sjá má nánari umfjöllun um þessa skýrslu í Morgunblaðinu 21. febrúar 2019 undir titlinum:

Afránið fór illa með rækjuna - Með fjölgun þorsks og ýsu í fjörðum og flóum fyrir vestan og norðan gáfu rækjustofnar eftir.

Forsaga málins er sú að með tilkomu kvótakerfis og mikils niðurskurðar þorskafla til þess að reyna að "byggja upp" stofninn hefur stórlega dregið úr sókn í innfjarðaþorsk með þeim afleiðingum að rækjan er upp étin og reyndar humarinn fyrir Suðurlandinu einnig. Þá er hann líka búinn að grisja vel seiði flatfiska og fleiri tegunda. Rækjudeildin er búin að benda á þetta í áratugi en má sín lítils gegn þorskadeild Hafró. Til að bregðast við þessu ætti að gefa fiskveiðar innfjarða frjálsar, það myndi gefa meiri fisk og meiri rækju. Þorskurinn er langt kominn með að éta upp loðnuna, búinn með rækjuna, humarinn, lúðuna og flatfiska á grunnsævi og ungviði sjálfs síns.

Spurt hefur verið hvort frjálsar veiðar smábáta muni ekki leiða til ofveiði er til að svara að fyrir nokkrum árum var ákveðið að minnka nýtingarhlutfall þorsks frá því að vera 35-40% af stofnstærð áratugum saman niður í 20% til þess að byggja upp stofninn. Þessi 35% nýting gaf 4-500 þús tonna árlegan afla langtímum saman sem sýndi að stofninn þoldi álagið vel. Eftir að nýtingarhlutfallið var lækkað féll aflinn og jafnframt minnkaði nýliðun. Þetta stafar af því að fæðuframboð hafsins leyfði ekki svo stóran stofn og hann fór að éta undan sér. Stofnstærð þorsks hefur náð mögulegu hámarki sínu og stofninn getur ekki stækkað meir. Meðan nýtingarhlutfallið er ekki hækkað fer þorskaflinn ekki mikið yfir 250 þús tonn, helming af því sem hann var í "ofveiðinni" áður fyrr. Að auka afraksturinn með frjálsri veiði smábáta gerið því ekkert nema gagn og veldur fráleitt ofveiði. Bónusinn er auknar tekjur af fiskimiðunum, þeim til gagns.

Tillögur að breytingum á frumvarpinu

Í ljósi framangreinds er lagt til að veiðar smábáta á handfæri verði gefnar frjálsar. Það eru engin fiskifræðileg rök fyrir því að veiðar smábáta hafi einhver áhrif á stærð þorskstofnsins til hins verra.

3. apríl 2019

Jón Kristjánsson fiskifræðingur og Sigurjón Þórðarson líffræðingur


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband