Skýrsla Hafró um erfðablöndun laxastofna. - Miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum

Mikil umræða hefur sprottið upp vegna fiskeldsisáforma víða um land. Takast þar á veiðiréttareigendur og stangveiðimenn annars vegar og fiskeldismenn hins vegar. Nýlega kom úr skýrsla frá Hafró um hættu af erfðamengun:

"Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi"

Þessi skýrsla hefur síðan verið notuð af báðum deiluaðilum til að styðja sitt mál. Minnir þetta mig á á deilur um smábátahöfn við Elliðaárósa á áttunda áratugnum. Veiðimálastjóri gaf umsögn um áhrif hafnarinnar á Elliðaárlaxinn og umsögnin var svo loðin að báðir deiluaðilar, sem voru annað hvort með eða á móti höfninni, notuðu umsögnina máli sínu til framdráttar. Höfnin var svo byggð en ekkert skelfilegt gerðist.

En aftur að skýrslu Hafró en þar segir:
"Í yfirstandandi rannsókn á vegum Hafrannsóknastofnunar (Leó Alexander Guðmundsson o.fl., óbirt gögn) hafa í fyrsta sinn fundist vísbendingar um erfðablöndun úr eldisfiski af norskum uppruna yfir í náttúrulega íslenska laxastofna. Verið er að vinna að skýrslu um þessar rannsóknir en helstu bráðabirgðaniðurstöður eru birtar hér með góðfúslegu leyfi höfunda. Í rannsókninni voru erfðagreind sýni úr 701 laxaseiði úr 16 vatnsföllum á tímabilunum ágúst 2015 og ágúst/október 2016. Auk þess voru erfðagreind sýni úr tveimur kynþroska eldislöxum sem veiddust í Mjólká í ágúst 2016."

Hér segir að verið sé að vinna úr rannsóknargögnum, 701 laxaseiði úr 16 ám, að meðaltali 43 seiðum frá hverri á, en ekki er getið í hvaða ám sýnin eru tekin, niðurstöður enn óbirtar, en ástæða þykir til að birta helstu niðurstöður, sem gefa sterkar vísbendingar um erfðablöndun norskra laxa og íslenskra. Það sem Hafró finnst bitastæðast birtist í kaflanum hér að neðan:

"Bráðabirgðaniðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að strokulaxar af norskum eldisuppruna hafi sloppið úr eldiskvíum, hrygnt og blandast villtum löxum í nágrenni eldissvæða. Skýr merki um erfðablöndun mátti sjá í tveimur laxastofnum, í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Í Botnsá fundust fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði, öll af árgangi 2014. Sýnatakan var ekki umfangsmikil en það er athyglisvert að helmingur greindra seiða úr Botnsá reyndist vera af eldisuppruna. Höfundar skýra blendingana með því að eldislax hafi hrygnt í ánni og æxlast með villtum löxum (sennilega eldishrygnur og villtir hængar). Hrein eldisseiði hafa hugsanlega verið afrakstur innbyrðis æxlunar strokulaxa en einnig er mögulegt að þarna hafi verið um að ræða strokuseiði úr seiðastöðinni í botni Tálknafjarðar. Höfundar leiða að því líkur að þarna hafi verið um að ræða afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013".

Hér eru miklar ályktanir dregnar af ákaflega takmörkuðum gögnum og það láist að geta aðstæðna við Botnsá.Svo virðist sem greind hafi verið 12 laxaseiði en enginn fullorðinn lax.

Botnsá er innst í Tálknafirði, stutt, köld, næringarsnauð með kvikulum malarbotni og ákaflega illa fallin, jafnvel óhæf, til uppeldis laxaseiða og viðhalds sérstaks laxastofns. Í ánni var ekki lax áður fyrr en í seinni tíð hafa veiðst í henni 5-6 laxar á ári. Í ósi árinnar hefur verið starfræk fiskeldisstöð í um 30 ár og þar framleitt laxaseiði ásamt eldi á regnbogasilungi í innikerjum og útitjörnum. Þar gætir flóðs og fjöru og óhjákvæmilega lekur fiskur út úr eldisstöðum.

Því verður að telja líklegt að seiðin sem fundust í Botnsá hafi komið úr eldisstöðinni og að þeir örfáu laxar sem þar hafa veiðst séu af svipuðum uppruna. Það er því nokkuð víst að í Botnsá hefur ekki verið neinn sérstakur laxastofn, sem hafi erfðablandast norskum laxi.

Enn fráleitari eru getgátur Hafró um að fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði séu afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013. Þetta er ævintýraleg túlkun á fátæklegum gögnum og hrein ágiskun.

Þá er óskiljanlegt og óleyfilegt að höfundar þessara getgáta hafi ekki greint frá því að eldisstöð, með norskum seiðum, hafi verið staðsett í ósi Botnsár í 30 ár. Einnig gleyma þeir því að seiðaeldisstöð, og áframeldisstöð hefur verið starfrækt á Gileyri, um 2 km frá Botnsá í áratugi og þaðan hafa vafalaust lekið seiði. Þá voru kvíar í firðinum á níunda áratugnum auk þess sem laxeldisstöðin Sveinseyrarlax var fyrir utan oddann.

Að mínu mati er þessi rannsókn ákaflega rýr og miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum. Vaknar því sú spurning hvaða tilgangi slík vinnubrögð eiga að þjóna.

Botnsá

 

Hér er yfirlitsmynd af ósi Botnsár og fiskeldisstöðinni, sem nú er orðin miklu stærri en þegar myndin var tekin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það gæti verið fróðlegt ef að fréttastofa sjónvarps myndi sýna okkur muninn á 100% villtu laxaseiði og svo blendingsseiði á milli villts lax og eldislax sem að væru jafngömul. Í hverju fælist munirnnn?

Hugsanlega eru þessi mál svipuð og ef að norskur vaxtarræktar-maður eignaðist 2 börn  með einhverri íslenskri konu út í Hrísey; síðan myndi hann flytja með annað barnið til noregs en hitt verða eftir í eyjunni.

Hugsanlega væri skárra að það hefðu komið NÝ GEN út í Hrísey frekar en að þangað hefði aldrei komið neinn flökku-einstaklingur með ný gen.

=Smá genablöndun er alltaf nauðsynleg öllum stofnum og það er sjálfsagt ekkert verra ef að þeir einstaklingar eru kynbættir.

Einhverjum bændum þætti það sjálfsagt ekkert verra ef að einhver að bestu stóðhestum landsins (sem að búið væri að kynbæta) slyppu frá sínum eigendum og fyljuðu einhverjar merar.

Væri það skaði eða happadrættisvinningur fyrir merar-bændurna?

Jón Þórhallsson, 31.7.2017 kl. 23:07

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Menn ættu að hafa meiri áhyggjur af blöndun asíubúa/blökkumann við hvítar konur heldur en af einhverri smá genablöndun hjá villtum laxi og eldislax sem að er nákvæmlega sama tegundin=ATLANTSHAFSLAX.

Jón Þórhallsson, 1.8.2017 kl. 09:43

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Jón Þórhallsson. Í pistlinum er ekki verið að ræða hvort erfðablöndun sé af hinu góða og illa og engin afstaða tekin til þess. Einungis er verið að benda á óvönduð vinnubrögð skýrsluhöfunda, hvernig þeir spinna tilgátur út frá takmörkuðum gögnum og minnast ekki sambýli árinnar og laxeldisstöðvar í áratugi, sem vel gæti skýrt tilveru "hreinna eldisseiða" í Botnsá.

Jón Kristjánsson, 1.8.2017 kl. 10:40

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þegar saman blandast auðlindapólitík og dramatík versnar nú heldur ástandið.

Árni Gunnarsson, 1.8.2017 kl. 13:04

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er algjörlega á sama máli og þú Jón Kristjánsson, en mér hefur fundist að ég hafi ekki alveg forsendur til að gagnrýna skýrslu HAFRÓ um þessi málefni.  En sem leikmanni getur mér ekki annað en blöskrað "faglegu" vinnubrögðin þar á bæ.  Í mínum huga er þessi skýrsla ekkert annað en lélegur brandari......

Jóhann Elíasson, 1.8.2017 kl. 14:04

6 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Sæll Jón.  Mikið er ég nú sammála þér.  Þessi skýrsla er afskaplega illa unnin, nánast sama hvar borið er niður.  Það væri afar óábyrgt af ráðamönnum að ætla að nota þessa skýrslu sem aðal gagn til að ákveða framtíð fiskeldis á Íslandi.  Áhættumat er rangnefni á henni af því að reiknilíkanið sem er smíðað í skýrslunni reiknar ekki út áhættu, aðeins líkindi byggð á afar hæpnum forsendum og getgátum.  Varðandi erfðablöndunina í Patreksfirði þá er mjög hæpið að byggja hluta skýrslunnar á óbirtum og órýndum niðurstöðum sem í þokkabót stangast á við það sem annarsstaðar hefur verið haldið fram. Skýrslan gæti orðið ákveðinn álitshnekkir fyrir Hafró þegar erlendir sérfræðingar hafa rýnt í hana  og gefið sitt álit á henni en nú stendur sú vinna yfir.

S Kristján Ingimarsson, 1.8.2017 kl. 16:08

7 Smámynd: Jón Kristjánsson

S. Kristján.  Ég benti nú aðeins á þennan augljósa galla á skýrslunni í þessum pistli en það er eins og þú segir miklu meira að. En þess verður að gæta þess að taka ekki of mikið fyrir í einu, þá missir lesandinn athyglina. Það er t.d. athyglisvert að þeir nota reiknilíkan, sem er ekkert betra en það sem matað er inn í það. En það er gert til þess að blekkja lesandann, flott að nota reiknilíkan eða þannig.

Mjög er t.d. gagnrýni vert að þeir lýsa ekki aðferðum eða rannsóknargögnum. Þeir veiða seiði til greiningar, án þess að geta um veiðiátak og áætlaðan fjölda á 100 fermetra, eins og við gerum venjulega, birta engin gögn um lengd, aldur, eða neitt annað sem skiptir máli. 

Ef þeir hafa ekki veitt nema 12 seiði þá merkir það að það sé lítið af seiðum í ánni, en eins og ég segi, engar upplýsingar eru gefnar um þessi atriði.

Hins vegar eru þeir mjög brattir í ályktunum þegar þeir segja að seiðin stafi frá hrygningu laxa sem sluppu úr kví í Patreksfirði! Skyldu þeir hafa rannsakað Botnsá í Patreksfirði og leitað það að seiðum? Veit ekki, enda minnast þeir ekki á það.

Jón Kristjánsson, 1.8.2017 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband