Söguskoðun: Ástand og horfur í íslensku matfiskeldi árið 2001

Í ljósi þeirra miklu áætlana sem eru í sjókvíaeldi er við hæfi að rifja upp hvernig staðan var árið 2001, en þá tók ég saman stöðuskýrslu fyrir Sjóvá Almennar tryggingar. Þá var ný bylgja að rísa og mikil ásókn var í að tryggja væntanlegt sjókvíaeldi.

Segja má að mikil bjartsýni hafi ríkt á þessum tíma, menn búnir að gleyma fyrra tímabili þar sem allt fór á hausinn. Nú átti að gera betur, búnaður var sagður orðinn betri, menn hefðu lært af reynslunni o.s. frv. Virtust menn búnir að gleyma að í fyrstu bylgjunni í kring um 1990 urðu stórfelld tjón vegna undirkælingar sjávar og stórviðra. Fiskur drapst vegna undirkælingar í Hvalfirði, Patreksfirði og Grundarfirði og mikið óveðurstjón varð í Vestmannseyjum, sundunum við Reykjavík, við Vatnleysuströnd og fleiri stöðum.

Tryggingarfélög urðu fyrir miklum áföllum og kusu að fara varlega í sakirnar varðandi þessa nýju áætlanir. Ein sú stærsta var í Mjóafirði en eftir nokkurra ára eldi þar fór allt á hliðina.

Nú eru enn komnar fram stórvaxnar eldisáætlanir á mörgum stöðum við landið. Eitt hefur breyst. Tíðarfar er almennt hagstæðara en það var um 1990. Þetta hefur orðið til þess að eldismenn hafa gleymt því að það geta komið harðir vetur þó svo að hitinn sé enn að dansa í kring um frostmarkið. Lítið má út af bera svo ekki verði stórtjón.

Hér fer á eftir samantekt skýrslunnar frá 2001, en skýrsluna í heild er að finna í skránni sem tengd er þessari færslu, sjá neðst á síðunni.

   Niðurstöður og samantekt úr stöðuskýrslu 2001

Fiskeldi það sem hafið var á níunda áratugnum gekk ekki sem skyldi. Allt eldi í sjókvíum, utan það sem enn er stundað í Eyjafirði, lagðist af. Ein kvíaeldisstöð, Rifós, er enn starfrækt í stöðuvatni.

Ein strandeldisstöð með kerjum á landi, Ísþór við Þorlákshöfn, er nú notuð til lúðueldis á vegum Fiskeldis Eyjafjarðar, önnur, Miklilax í Fljótum, hefur að hluta verið tekin til eldis á barra sem er hlýsjávarfiskur ættaður úr Miðjarðarhafi. Lax er enn alinn í þremur landstöðvum, Íslandslaxi á Stað við Grindavík, Silungi á Vatnsleysi og Silfurstjörnunni í Öxarfirði. Allar aðrar matfiskeldisstöðvar fyrir lax hafa verið lagðar niður.

Nokkrar seiðaeldisstöðvar starfa enn og þá í tengslum við matfiskstöðvar. Hólalax að Hólum í Hjaltadal, Norðurlax Laxamýri og Laxeyri að Hvítársíðu í Borgarfirði framleiða seiði til fiskræktar í laxveiðiám. Þá er seiðaeldisstöð Vogalax í Vogum á Vatnsleysuströnd notuð til eldis á sæeyra sem er snigill sem selst sem sælkerafæða.

Aðrar seiðastöðvar sem framleiddu hafbeitarseiði lögðust af þegar allri hafbeit var hætt fyrir um þremur árum.

Ástæður þess að áðurnefnum rekstri var hætt á sínum tíma voru annað hvort þær að laxeldið gekk ekki eða skilaði ekki arði.

Spurt hefur verið hvort áætlanir sem nú hafa verið gerðar séu raunhæfar. Því er að nokkru svarað í þessari skýrslu en almennt má segja að hæpið er að matfiskeldi á laxi verði arðbært. Sagt er að menn hafi lært af fyrri reynslu og að allur búnaður sé nú betri en hann var þá.

Náttúrulegar aðstæður við Ísland hafa hins vegar ekki breyst. Flestir staðir þar sem sjávarhiti er þolanlegur eru opnir fyrir veðrum. Þó búnaður sé nú orðinn það góður að hann standist verstu veður verður ekki það sama sagt um fiskinn, fiskur sem er í kvíum og getur ekki kafað niður úr öldurótinu lemst oft til bana í miklum sjógangi eða særist og getur verið lengi að ná sér. Þetta gerðist t.d. í stóru úthafskvíunum á Vatnsleysuvík um 1990. Kvíarnar héldu, en fiskurinn lamdist til bana.

Annars staðar, t.d. á Vesturlandi er hætta á undirkælingu á vetrum. Þar sem meira skjól er, eins og á fjörðunum fyrir austan, er hitabúskapur þess eðlis að gera verður ráð fyrir hægari vexti en í samkeppnislöndum eins og Færeyjum og Noregi. Þetta eru framleiðendur sem íslenskt laxeldi verður að keppa við og má því ætla að það geti orðið þungur róður. Þá er hér hætta á hafís, aðallega frá Norðurlandi suður til Austfjarða.

Skoða verður aðkomu Tryggingarfélaga með tilliti til allra þessara þátta. Margar núverandi fiskeldisstöðvar eru vel reknar og virðast ganga viðskiptalega séð. Ekkert er til fyrirstöðu að tryggja slíkar stöðvar.

Hvað varðar væntanlegar stöðvar, verður að skoða áhættuþætti og meta hvaða skilyrði þarf að uppfylla í hverju tilfelli og taka þá tillit til stærðar, staðarvals og þeirrar sérstöku áhættu sem fylgir hverjum stað. Líklegt er að ef ekki fáist tryggingar innanlands verði leitað annað. Rétt er því fyrir tryggingafélög hér að fylgjast með og undirbúa hvaða tryggingar verði hægt að bjóða væntalegum eldisstöðvum, með hvaða kjörum hvaða skilyrðum. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það væri sterkur leikur ef að það væri hægt að setja laxinn meira á uppboðsmarkað eins og gert er með aðrar fisktegundir þannig að raunverðið á laxinum væri meira sýnilegt og þá væri betur hægt að fylgjast með                 framboði, verði og eftirspurn í rauntíma.

Jón Þórhallsson, 30.6.2017 kl. 22:52

2 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Margt hefur breyst frá árinu 2001.  Búnaður og þekking er nú til staðar sem ekki var þá. Ennfremur hafa verið skilgreind þau svæði sem heppileg og örugg þykja til laxeldis, burðarþol og leyfilegt eldismagn í viðkomandi fjörðum hefur verið skilgreint og kröfur til búnaðar hafa verið skilgreindar.  Þá hefur komið inn fjármagn til fjárfestinga auk þekkingar erlendis frá en það fjármagn og sú þekking hefur ekki verið fáanleg hér á landi til dagsins í dag.  Varðandi vðerið þá hefur fiskeldi verið stundað með góðum árangri á svæðum sem eru með sambærilegt og jafnvel verra veður en er hér við land, t.d. í norður Noregi, Færeyjumm, Orkneyjum og Hjaltlandseyjum.

S Kristján Ingimarsson, 1.7.2017 kl. 13:08

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll S Kristján.

Veit allt um þetta, er ekki að taka afstöðu til núverandi stöðu, þekkingar og reynslu. Þetta er fyrst og fremst söguleg heimild, sem ég vil ekki að falli í gleymsku, brú milli fyrsta fasa og þess þriðja, sem er í gangi núna.

Minni samt á að veðurfar, kaldir vetur, eru mikill áhættuþáttur, sem menn tala lítið um núna í allri þessari hlýnunar-(af manna völdum) umræðu. Aðstæður og veðurfar getur breyst mjög snögglega til hins verra.

Og, hætta á undirkælingu er margfalt meiri hér en í N Noregi, Færeyjum og Skotlandseyjunum. Á síðartöldu stöðunum er undirkæling óþekkt. Minni á að í hitteðfyrra fór sjávarhiti í Patreksfirði og Tálknafirði niður í núll, einn norðan hvellur í viðbót hefði drepið fiskinn. Nóg urðu afföllin samt.  

Jón Kristjánsson, 1.7.2017 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband